Hópslagsmál í Mosfellsbæ

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tvær tilkynningar um slagsmál í gærkvöldi og í nótt. Annars vegar var um að ræða hópslagsmál í Mosfellsbæ rétt fyrir klukkan tvö í nótt og slagsmál í miðbænum um ellefuleytið í gærkvöldi. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Tíu sinnum í gærkvöldi og í nótt voru ökumenn stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða hvors tveggja. 

Í nokkrum tilvikanna var um að ræða ökumenn sem höfðu áður verið sviptir ökuréttindum. 

Þá var einnig nokkuð um innbrot, t.a.m. innbrot á heimili og í bíl í Hlíðahverfi sem og innbrot í leikskóla í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Þá barst lögreglu tilkynning um innbrot í geymslur í Kópavogi á ellefta tímanum í gærkvöldi.

mbl.is