Ekki tekið tillit til bólusetningar við ákvörðun um sóttkví

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, og Alma Möller landlæknir.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, og Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

96 greindust með kórónuveiruna í gær að sögn Kamillu S. Jósefsdóttur staðgengils sóttvarnalæknis. Enn er unnið að því að greina sýni sem tekin voru í gær. 

Fram kom í máli Kamillu á upplýsingafundi almannavarna í dag að hlutfall óbólusettra meðal smitaðra sé hærra en gengur og gerist í samfélaginu. Er það til marks um gagn bólusetninga. Tæplega þriðjungur þeirra sem eru að greinast með veiruna hér á landi eru í sóttkví við greiningu. 

Í gær var tekin ákvörðun út frá upplýsingum frá rakningateymi almannavarna um að hætta að taka tillit til þess hvort fólk sé bólusett eða ekki þegar það er sett í sóttkví. 

Þá sagði Kamilla að í vikunni verði hafin bólusetning meðal ófrískra kvenna. Hingað til hafa fyrst og fremst barnshafandi konur í framlínustéttum eða með undirliggjandi sjúkdóma verið bólusettar. Þar sem um er að ræða stóran hóp fólks verður honum boðin bólusetning. 

Örvunarskammtar til skoðunar

Að sögn Ölmu D. Möller landlæknis er nú til skoðunar að veita þriðja skammt bóluefnis, svokallaða örvunarskammta. Þá er verið að uppfæra bóluefni Pfizer gegn Delta-afbrigðinu.

Alma sagði á fundinum að Delta-afbrigði veirunnar sé talið valda tvöfalt fleiri innlögnum og jafnvel fleiri dauðsföllum. Afbrigðið sé að breyta leikreglum heimsfaraldursins. Bólusetning dragi mikið úr veikindum og vörn gegn alvarlegum veikindum sé yfir 90%. 

Alma sagði að óvissan væri mikil, sérstaklega um hvernig Delta-afbrigðið eigi eftir að haga sér hjá bólusettri þjóð. Á meðan málin skýrist þurfi að beita aðgerðum. 

Bakvarðasveitin hefur nú verið virkjuð í þriðja sinn í faraldrinum að sögn Ölmu en það er gert vegna mikils álags á Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert