Heita vatnið á Seltjarnarnesi væntanlegt von bráðar

Heita vatnið var tekið af á Seltjarnarnesinu um klukkan 19 …
Heita vatnið var tekið af á Seltjarnarnesinu um klukkan 19 í gærkvöldi og átti að vera komið aftur á í morgun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Heita vatnið var tekið af á Seltjarnarnesi um klukkan 19 í gærkvöldi og átti að vera komið aftur á í morgun. Viðgerðin var umfangsmeiri en áætlað var og hafa íbúar nú verið án heita vatnsins í rúman sólarhring. Starfsmenn hitaveitu segja að reikna megi með því að heitt vatn renni þar aftur síðar í kvöld.

„Sumt af þessu hefur ekki verið hreyft í 49 ár þannig að þetta eru bara lagfæringar,“ segir Anton Sigurðsson, starfsmaður Hitaveitu Seltjarnarness.

„Þetta var bara aðeins umfangsmeira en við héldum svona þegar maður byrjar á þessu. Svo er bara verið að endurnýja og bæta við lokum og þess háttar, Nesið stækkar bara og þá þarf meiri hita og einhverjar endurbætur.“

Anton segir þetta vera viðgerð sem sé búið að standa til að framkvæma lengi, hann segir að þrátt fyrir að þetta hafi tekið lengri tíma en búist var við hafi þó allt verið í mikið betra ásigkomulagi en talið var.

„Við erum bara á leiðinni að fara að hleypa heita vatninu aftur á, við förum að kveikja á dælunum rétt bráðum en það tekur svolítinn tíma fyrir þetta að komast inn á kerfið,“ sagði Anton um klukkan tíu í kvöld.

Tilkynnt var í íbúahópi Seltirninga á Facebook í kvöld að ólíklegt sé að rétt hitastig verði á laugum og pottum í Sundlaug Seltjarnarness í fyrramálið af þessum sökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert