Markaður fyrir atvinnuhús í frosti

Kirkjusandur. Byggingar sem Miðborg 105 hefur reist. Í Stuðlaborg (gul) …
Kirkjusandur. Byggingar sem Miðborg 105 hefur reist. Í Stuðlaborg (gul) eru 77 íbúðir og í Sólborg (brún) 52 íbúðir. Milli þeirra má sjá í skrifstofubygginguna Sjávarborg, sem nú er í byggingu. Forsvarsmenn Miðborgar 105 telja að spurn eftir atvinnuhúsnæði sé ekki fyrir hendi um þessar mundir. mbl.þis/Baldur Arnarson

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í óskir um breytta uppbyggingu á Kirkjusandi, þar sem höfuðstöðvar Strætó voru um árabil. Hætt verður við byggingu atvinnuhúss og íbúðum fjölgað í staðinn.

ASK-arkitektar, fyrir hönd Miðborgar 105, þróunaraðila reita B, C, D og F á Kirkjusandi, rituðu skipulagsfulltrúa bréf í maí sl. og óskuðu eftir breytingu á landnotkun hluta deiliskipulags á reitnum.

„Það er kunnara en frá þurfi að segja, að uppbygging atvinnuhúsnæðis er erfiðleikum bundin þessi misseri. Nægt framboð er nú þegar af atvinnuhúsnæði og verið að byggja nýtt í miðbæ Reykjavíkur. Reynsla Miðborgar 105 af uppbyggingu atvinnuhúsnæðis á reit B sýnir enn fremur að eftirspurn eftir slíku húsnæði er ekki fyrir hendi. Það er því mat þróunaraðila að ekki sé raunhæft að reisa skrifstofuhúsnæði á Kirkjusandi í þeim mæli sem gert er ráð fyrir í gildandi deiliskipulagi,“ segir í bréfinu, sem Páll Gunnlaugsson artkitekt ritar undir.

Af þessum ástæðum er lagt til að landnotkun reits F verði breytt að hluta í íbúðarhúsnæði. Í gildandi deiliskipulagi er reit F þrískipt, F1-F3, en reiturinn stendur á horni Borgartúns, Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar. Byggingamagn á reitnum er 19.450 fermetrar. Á reit F3 verða byggðar íbúðir, alls 3.000 m². Á reit F2 er gert ráð fyrir 7.500 m² atvinnuhúsnæði en Miðborg 105 vill breyta því í íbúðir. Sé reiknað með 90 fermetra íbúðum að meðaltali gæti húsið rúmað 83 íbúðir.

„Þá er eftir reitur F1, um 8.950 m², sem áfram yrði ætlaður starfsemi, m.a. fyrir hótel og skrifstofur, allt eftir því hvaða markaðir taka við sér,“ segir í bréfinu sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »