Vertíð í vaskinn í tónleikahaldi

Bræðslan fór fram síðustu helgi á Borgarfirði eystra og var …
Bræðslan fór fram síðustu helgi á Borgarfirði eystra og var þannig ein af síðustu takmarkalausu tónahátíðunum sem haldnar eru í bili. mbl.is/Ari Páll Karlsson

Nýjar sóttvarnareglur eru bylmingshögg fyrir tónleikahald innanlands en bransinn var rétt að komast á skrið eftir rúmt ár án venjubundinna tekna. Tónlistarfólk safnar gjarnan tekjum í stórum stíl á stuttum tímabilum og verslunarmannahelgin er eitt þeirra.

„Þetta er lykilatriði hjá mörgum tónlistarmönnum. Þeir geta lifað nokkra launalausa mánuði eftir að hafa búið vel í haginn á tímabilum sem þessum. Sveiflurnar eru hluti af starfinu! Tónlistarmenn missa vinnuna oft á ári,“ segir Gunnar Hrafnsson, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna.

Hann líkir verslunamannahelginni við vertíð: „Þetta eru nokkur tímabil. Jólavertíðin, sumarvertíðin og árshátíðavertíðin. Margir sitja núna eftir með sárt ennið og það er morgunljóst að í hagsmunabaráttu tónlistarmanna þarf að bretta upp ermar næstu mánuði ef ástandið skánar ekki.“

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEF, deilir áhyggjum Gunnars. „Við sáum það í uppgjöri okkar frá síðasta ári að það varð algjört hrun í tekjum af tónleikahaldi fyrir höfunda eða tæplega 80% minna en árið á undan.“

Hún segist þó ánægð með viðbragðshraða bransans. „Það sem er ánægjulegt að sjá í þessu ástandi er hvað bransinn er fljótur að bregðast við og skipuleggja nýja viðburði. Þessir streymistónleikar sem komu inn á síðasta ári voru góð hugmynd en tekjurnar eru bara dropi í hafið miðað við tekjurnar í venjulegu árferði.“

Þær takmarkanir sem nú eru í gildi valda vandræðum í tónleikahaldi en Gunnar bendir í því samhengi sérstaklega á nándarregluna. Hann kveðst þó feginn að tveggja metra reglan hafi ekki orðið fyrir valinu í þetta sinn. „Með eins metra reglunni er þetta einn fermetri á mann en þegar það er tveggja metra regla þarf hver einstaklingur fjóra fermetra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert