„Mistök eins og okkur grunaði“

Lögreglan hefur látið eyða upptökunum úr gistiaðstöðu stúlknanna á ReyCup.
Lögreglan hefur látið eyða upptökunum úr gistiaðstöðu stúlknanna á ReyCup. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur látið eyða upptökunum úr gistiaðstöðu unglingsstúlkna á ReyCup um helgina. „Það virðist enginn hafa verið að horfa á þetta svo þetta hafa bara verið mistök, eins og okkur grunaði,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi.

Rannsókn málsins var lokið í gær en upptökurnar hafa verið speglaðar til þess að gögnin séu tiltæk ef eitthvað nýtt kemur upp.

Eft­ir­lits­mynda­vél­ar fund­ust í gistiaðstöðu ung­lings­stúlkna sem kepptu í fót­bolta á ReyCup um helg­ina og kveikt var á mynda­vél­un­um. Forsvarsmenn ReyCup höfðu, að sögn framkvæmdastjóra Laugardalshallar, óskað þess að slökkt yrði á eftirlitsmyndavélum.

Stúlk­urn­ar eru fimmtán og sex­tán ára og eru þær í fót­boltaliði Sel­foss. Þær dvöldu í Laug­ar­dals­höll og skiptu meðal annars um föt á svæðinu þar sem eftirlitsmyndavélarnar voru.

Niðurstaðan samhljóða yfirlýsingu 

Málið fór rakleitt inn á borð lögreglu og stjórn ReyCup sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hún baðst velvirðingar á atvikinu og lét vita af því að slökkt hefði verið á myndavélunum um leið og málið uppgötvaðist.

Í þeirri yfirlýsingu kom jafnframt fram að ekkert benti til þess að um ásetning væri að ræða heldur fyrst og fremst athugunarleysi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú lokið rannsókn málsins og eru niðurstöður samhljóða yfirlýsingunni.

mbl.is