Vill kalla þing saman vegna veirunnar

Inga Sæland í ræðustól Alþingis.
Inga Sæland í ræðustól Alþingis. mbl.is/Arnþór

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur óskað eftir því að þing verði kallað saman ekki síðar en á þriðjudag.

Hefur hún sent skilaboð þessa efnis á aðra alþingismenn.

„Ég kalla hér með eftir stuðningi ykkar til að kalla Alþingi saman til fundar eigi síðar en þriðjudaginn 3. ágúst nk. vegna fjórðu bylgju Covid-19-faraldursins sem hefur verið í veldisvexti hér innan lands að undanförnu,“ segir í skeyti Ingu.

Vill skýrslu heilbrigðisráðherra um stöðu mála

„Lagt er til að dagskrá þingfundar verði með þeim hætti að ráðherrar svari óundirbúnum fyrirspurnum, ásamt því að heilbrigðisráðherra flytji skýrslu um stöðu mála líkt og venjan var þegar fyrri bylgjur gengu yfir.

Staðan er grafalvarleg þar sem álag á starfsemi Landspítalans, eftir því sem smitum og um leið innlögnum fjölgar, er á hættustigi og hefur verið frá miðnætti þann 23. júlí síðastliðinn.   

Alþingi var kallað saman með litlum fyrirvara til að lagfæra mistök sem urðu við lagasetningu í júní síðastliðnum.

Ég tel að ef einhvern tímann hefur verið þörf á að kalla þingið saman og axla ábyrgð sem kjörinn fulltrúi þjóðarinnar, þá sé það nú í fordæmalausum heimsfaraldri Covid-19.“

Óskað er svars frá þeim þingmönnum sem hyggjast styðja beiðnina fyrir klukkan 15 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert