Fjöldi smitaðra í Herjólfi reyndist vera þrjátíu

Herjólfur.
Herjólfur. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Þrjátíu erlendir ferðamenn dvelja nú í nýopnuðu farsóttarhúsi í Þórunnartúni eftir að hafa greinst með veiruna. Hópurinn greindist með veiruna í fyrradag eftir að hafa siglt með Herjólfi til Vestmannaeyja. 

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, segir að enginn sé í nýja farsóttarhúsinu nema umræddur hópur. „Þau eru ein þar en það mun breytast fljótt í dag geri ég ráð fyrir,“ segir Gylfi. 

Gylfi segir að hópurinn sé ekki mikið veikur enn sem komið er. Hann segist vita til að stór hluti hópsins sé bólusettur, en getur ekki staðfest að hann sé það allur. 

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins.
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins. mbl.is/Sigurður Bogi

Nýjar reglur létti undir 

„Við erum núna með 250 í einangrun og 160 í sóttkví, 130 af þeim eru ferðamenn sem eru í skimunarsóttkví sem við förum nú að losna við út af reglugerðarbreytingu. Það mun létta mikið undir,“ segir Gylfi og vísar þar til fyrirhugaðrar reglugerðabreytingar heilbrigðisráðherra. Samkvæmt nýjum reglum munu aðeins þeir sem þurfa að fara í einangrun geta nýtt sér farsóttarhúsin. 

Þá segir Gylfi að nýjar reglur, sem gera Covid-göngudeild Landspítalans kleift að útskrifa einkennalausa og fullbólusetta sjúklinga eftir tíu daga í stað fjórtán, hafi létt undir álaginu á farsóttarhúsunum. 

„Það léttir á okkur líka. Í dag eru að útskrifast nokkrir hjá okkur og það léttir á álaginu. En við búumst við því núna eftir verslunarmannahelgina þegar fólk kemur heim úr sumarfríum að það fari fleiri í skimun og fleiri greinist þá,“ segir Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert