Vandi Landspítalans ekki leystur með auknum fjárframlögum einum og sér

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Vandi Landspítalans er fjölþættur og verður ekki leystur með auknum fjárframlögum einum og sér. Þetta segir Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, í samtali við mbl.is.

Mikið álag er á Land­spít­al­an­um sem starfar nú á hættustigi. Mönnun er víða tæp og löng bið eftir þjónustu. Álagið er sér­stak­lega mikið á bráðamót­töku spít­al­ans í Foss­vogi. Fé­lag sjúkra­hús­lækna sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem staðan á spítalanum er sögð vera „íslenskum yfirvöldum til skammar“.

Spurður hvort það komi til greina að auka fjárframlög til Landspítalans í ljósi ástandsins svarar fjármálaráðherra játandi. „Að sjálfsögðu kemur til greina að bæta viðnámsþrótt heilbrigðiskerfisins til samræmis við aðstæður en þær aðstæður sem hafa skapast núna er ekki beinlínis vegna kórónuveirufaraldursins,“ segir Bjarni.

Bjarni segir það staðreynd að fjárframlög til heilbrigðiskerfisins hafi verið aukin verulega á þessu kjörtímabili en að afköst hafi ekki aukist í takt sem þykir áhyggjuefni.

„Við þurfum að ganga eftir því að afköstin í kerfinu vaxi til samræmis við bætta mönnun og betri fjármögnun. Þetta er nú einn af rauðu þráðunum í McKinsey-skýrslunni sem kom út í fyrra og heilbrigðisráðuneytið kynnti til sögunnar undir lok síðasta árs að það væri ákveðið áhyggjuefni að afköstin í kerfinu væru ekki að vaxa til jafns við aukin framlög og bætta mönnun. Þarna stöndum við áfram frammi fyrir mikilli áskorun sem mögulega er hægt að leysa með betri fjármögnun en það er líka spurning hvað annað gæti verið að koma í veg fyrir að við náum árangri þegar við erum að gera margt rétt,“ segir Bjarni.

Húsnæðisvandi og samningar í lausu lofti

Spurður hvar vandi spítalans liggi ef ekki í skorti á fjármagni segir Bjarni húsnæðismál vera „ákveðinn þröskuld“.

„Við stöndum í miðju verki við að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús og það er þolinmæðisverk að komast í gegnum þetta tímabili sem nú bíður okkar. Við erum á miklu framkvæmdaskeiði núna.“

Nýr Landspítali rís við Hringbraut.
Nýr Landspítali rís við Hringbraut. mbl.is

Þá segir hann það heldur ekki vera til framdráttar hve illa það gengur að semja við Sjúkratryggingar. Af þeim sökum séu margir sérfræðilæknar enn samningslausir.

„Það er ekki að hjálpa heilbrigðiskerfinu heilt yfir. Við þurfum að leiða þá samningalotu til lykta. Ég held það sé svona sitt lítið af hverju sem þarf að gerast. Við þurfum líka að rýna betur í niðurstöðu þessara sérfræðinga sem hafa verið að skoða afköstin í heilbrigðiskerfinu og ég vísa aftur til þessara skýrslu sem er í raun og veru að segja okkur aftur sama hlutinn sem við höfum áður séð að við eigum að geta aukið framleiðni í heilbrigðiskerfinu hjá okkur,“ segir Bjarni að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka