Í einangrun á brúðkaupsdaginn

Íris Rós Ragnhildardóttir og Árni Beinteinn Árnason ætluðu að halda brúðkaup í gær. Það gekk ekki upp því Íris er heima í einangrun smituð af kórónuveirunni. Þau þurftu því að fresta brúðkaupinu, í annað sinn. Brúðkaupsdagurinn varð þó gleðilegur eftir allt saman, þar sem Árni kom ásamt fleiri leikurum og söngvurum og hélt tónleika fyrir Írisi.

Íris og Árni voru búin að skipuleggja brúðkaupið í um ár, alveg frá því að þau þurftu að fresta því í fyrra vegna samkomutakmarkana. Þau ætluðu að gifta sig í Dómkirkjunni og halda veislu í Gamla bíói. Íris var búin að verja töluverðum tíma í að hanna hinn fullkomna brúðarkjól. Vinir og ættingjar Írisar og Árna sem búa erlendis voru komin til landsins.

„Þau komu til landsins sama dag og ég var send í skimun. Þá var ég alveg einkennalaus svo ég var í miklu áfalli þegar ég fékk símtal um að ég væri smituð. Það var bara þremur dögum fyrir brúðkaup,“ segir Íris.

Hún var sjálf búin að gæta sín afar vel að undanförnu, enda vildi hún koma í veg fyrir að eitthvað færi úrskeiðis svo stuttu fyrir stóra daginn. Hún smitaðist því sannarlega ekki á neinum mannmörgum viðburði.

Íris Rós er í einangrun en er einkennalaus. Hún vonast …
Íris Rós er í einangrun en er einkennalaus. Hún vonast til þess að þurfa ekki að fresta brúðkaupinu í þriðja sinn.

Rapparar, söngvarar og leikarar úti í garði

Aðspurð segir Íris að það hafi verið erfitt að sitja heima daginn sem hún ætlaði að giftast Árna. En dagurinn varð ekki svo slæmur eftir allt saman.

„Ég var bara hérna heima í miðju þunglyndi þegar ég heyrði allt í einu eitthvað í garðinum. Þá hringdi síminn og Árni bað mig að koma út í garð. Þá voru þar vinir okkar Björgvin Franz, Króli, Dísa úr Reykjavíkurdætrum, Júlí [Heiðar], Birna Pétursdóttir leikkona og Árni. Þau voru í garðinum og tóku alveg svona 17 lög,“ segir Íris sem fylgdist með af svölunum.

„Þannig að ég fékk mitt show eftir allt saman, þótt ég hafi þurft að vera á svölunum. Ég fór ekki leið að sofa, ég fór glöð upp í rúm.“

Króli, Árni Beinteinn, Björgvin Franz, Júlí, Dísa og Birna. Íris …
Króli, Árni Beinteinn, Björgvin Franz, Júlí, Dísa og Birna. Íris sést í bakgrunni úti á svölum.

Brúðkaupið fer í fyrsta lagi fram á næsta ári

Íris fékk líka gjafir frá vinum sínum sem þau settu í körfu sem hún dró upp á svalir.

En eru þau farin að skipuleggja brúðkaup í þriðja sinn?

„Árni er leikari og hann sýnir allar helgar. Ég veit að þetta verður ekki fyrr en í fyrsta lagi næsta sumar. Vonandi getum við haldið brúðkaup þá. Við ætlum að reyna að líta jákvætt á þetta og halda þá bara æðislegt brúðkaup á næsta ári og vona að útlendingarnir verði til í að koma aftur. Vonandi þurfum við ekki að fresta þessu í þriðja skiptið.“

Enginn úr fjölskyldu Írisar smitaðist og er hún sjálf einkennalaus.

Þótt það sé erfitt að fá ekki að upplifa það sem þau Árni voru búin að verja svo miklum tíma í að skipuleggja, í það minnsta ekki strax segir Íris erfiðast af öllu að geta ekki haft son sinn, sem er rúmlega eins árs gamall, hjá sér.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá nokkurn veginn hvernig atburðarásin átti sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert