Það þarf að fjarlægja skipið

Mikil olía er í firðinum eins og sést á myndinni.
Mikil olía er í firðinum eins og sést á myndinni. Ljósmynd/Hlynur Vestmar Oddsson

Olía er tekin að flæða úr skipsflaki El Grillo að nýju og ógnar lífríki Seyðisfjarðar. Hlynur Vestmar Oddsson, kajakleiðsögumaður frá Seyðisfirði, harmar lekann og vill láta fjarlægja skipið.

„Já því miður er þetta aftur farið af stað,“ segir Hlynur en hann hefur haft augun opin fyrir lekanum síðustu ár. „Það er farið að tærast svo skipið að það eru farnir að koma lekar á fleiri stöðum en einum.“

Olíuskipið breska liggur enn á botni Seyðisfjarðar og hefur þar verið frá því þýskar flugvélar sökktu því í heimsstyrjöldinni síðari.

„Þetta drepur náttúrlega okkar lífríki, fugla og unga,“ segir Hlynur en síðast þegar leki varð í skipinu var greint frá því að æðarungarnir lifðu margir hverjir ekki olíuna af og urðu máfum að bráð. Nú er staðan svipuð, dauðir æðarfuglar liggja í fjörunni.

Æðafugl sem Hlynur fann dauðan í fjörunni. „Þetta drepur náttúrulega …
Æðafugl sem Hlynur fann dauðan í fjörunni. „Þetta drepur náttúrulega okkar lífríki, fugla og unga.“ Ljósmynd/Hlynur Vestmar Oddsson

„Mesta umhverfisslys Íslandssögunnar“

Síðan þá hefur verið ráðist í ýmsar aðgerðir til þess að stöðva lekann, til að mynda var dælt upp úr flakinu árið 2001 og steypt fyrir lekann fyrir rúmu ári.

Nú er aftur á móti sennilegt að annað op hafi myndast. „Þetta er því miður ekki búið dæmi, þetta ætlar að verða einhver eilífðarleki,“ segir Hlynur.

Spurður hvað sé hægt að gera segir Hlynur að það sé að fjarlægja skipið, sem er um 7.200 brúttótonn. „Þetta er skuggalegt, mesta umhverfisslys Íslandssögunnar af mannavöldum.“

Olían flýtur um strandir Seyðisfjarðar.
Olían flýtur um strandir Seyðisfjarðar. Ljósmynd/Hlynur Vestmar Oddsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert