Ætla að auka vernd votlendis

Fuglalíf hefur aukist eftir að Dagmálatjörn var endurheimt.
Fuglalíf hefur aukist eftir að Dagmálatjörn var endurheimt. Ljósmynd/Bergþór Magnússon

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið birti í dag aðgerðaáætlun um verndun votlendis. Áætlunin er sett fram í tólf aðgerðum, sem verða á ábyrgð Landgræðslunnar og Umhverfisstofnunar, taka til landgræðslu og náttúruverndar. 

Áhersla er á verndun votlendis með friðlýsingum á votlendissvæðum og skráningu á náttúruminjaskrá eða friðlýsingu svæða sem þar sem endurheimta má votlendi. Þá er í áætluninni að finna aðgerðir um öflun og miðlun upplýsinga um stöðu verndunar og endurheimtar, endurskoðun laga og reglugerða og aukið samstarf við landeigendur.

Votlendi viðhaldi líffræðilegum fjölbreytileika

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum til ársins 2030 er gert ráð fyrir að komið verði í veg fyrir frekari framræslu votlendis hér á landi og þá sér í lagi mómýra.

Mómýrar hafa sérstöðu í samhengi loftslagsmála því að í jarðvegi þeirra er bundið mikið kolefni sem mikilvægt er að tapist ekki. Við framræslu þornar jarðvegur mýra og kolefnið í jarðveginum tekur að brotna niður og losna sem koldíoxíð út í andrúmsloftið. Einnig hefur votlendi mikið gildi fyrir líffræðilega fjölbreytni og gegnir hlutverki við temprun vatnsrennslis og miðlun næringarefna,“ segir í tilkynningu frá stjórnarráðinu. 

Í tilkynningunni er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra að vernd votlendis sem ekki hefur þegar verið raskað sé forgangsatriði. 

mbl.is