Engar áhyggjur þar til Íslendingar byrja að hlaupa

Anne-Maire Draaisma og Stefan Immers fra Hollandi segjast ekki hafa …
Anne-Maire Draaisma og Stefan Immers fra Hollandi segjast ekki hafa áhyggjur af hlaupinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðamenn á leið um Skaftártungu voru misáhyggjufullir yfir hlaupinu í Skaftá þegar blaðamaður náði tali af þeim við gömlu brúna yfir Eldvatn við Ása.

Hollendingarnir Anne-Maire Draaisma og Stefan Immers virtust lítið kippa sér upp við þessi ósköp en ef það er eitthvað sem ferðin um Ísland hefur kennt þeim þá er það að búast megi við ýmsu.

„Við erum á ferð um Ísland og á hverjum degi eru nýjar uppákomur. Ef þú hefðir sagt mér að þetta væri venjulegt flæði þá hefði ég trúað þér. Alls staðar sem við horfum sjáum við eitthvað sem við myndum ekki sjá heima. Allt er sérstakt, fossarnir eru frábærir en við myndum ekki vita hvort það væri meira vatn í þeim en vanalega,“ sagði Stefan. 

Þau fréttu sjálf af hlaupinu fyrir hálfgerða tilviljun en eftir að hafa orðið vör við fnykinn af brennisteini í morgun fóru þau að spyrjast fyrir um aðstæður í móttökunni á hótelinu sem þau dvöldu á. Voru þau þá upplýst um hlaupið.

Aðspurð segjast þau ekki áhyggjufull yfir ástandinu þó að búið væri að vara þau við að vegirnir myndu mögulega lokast. „Svo sáum við vatnið í hrauninu áðan og á einum tímapunkti munaði bara tæpum metra á að vatnsborðið næði upp að vegi,“ sagði Anne-Marie.

Fenguð þið nokkuð hnút í magann? 

„Nei, því Íslendingarnir eru allir svo rólegir. Þegar Íslendingarnir fara að hlaupa þá fyrst verð ég hræddur. Annars er ég bara rólegur,“ sagði Stefan. 

Hrædd um að þurfa að fara hinn hringinn

Gosha Zydowicz, ferðamanni frá Bretlandi, stóð ekki á sama þegar hún frétti af hlaupinu. Hafði hún áhyggjur að lokanir myndu setja strik í reikninginn í Íslandsferðinni sinni.

Gosha Zydowicz frá Bretlandi við Eldvatn.
Gosha Zydowicz frá Bretlandi við Eldvatn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við horfðum á myndband af flæðinu á Lava Centre og fengum smá áhyggjur því við erum að fara á Höfn. Við höfðum áhyggjur að það myndi mögulega flæða yfir veginn. Ég er aðeins búin að kynna mér þetta og vissi að það var ekki jafn stórt og búist var við, en ef það hefði flætt þá hefðum við þurft að fara hinn hringinn,“ segir Gosha. 

Hún kveðst aldrei hafa séð annað eins enda eru engar jökulár í Bretlandi. Spurð hvernig henni lítist á ána nú þegar hún hefur fengið tækifæri að virða hana fyrir sér, lýsir Gosha henni sem ógnvænlegu náttúrufyrirbrigði.

„Hún lítur út fyrir að vera mjög reið,“ segir hún og hlær.

Aðspurð segist hún þó almennt sátt við dvölina á Íslandi þó hún kjósi frekar að koma yfir sumartímann enda mikil væta í september. „Ísland er svo óútreiknanlegt, þú myndir ekki sjá þetta annars staðar. Á hverri mínútu er nýtt veðurfar. Þetta er engu líkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert