Ævintýraborg á Skólavörðuholti

Ungbarnaleikskólinn á að rísa á lóð Vörðuskóla við Skólavörðuholtið.
Ungbarnaleikskólinn á að rísa á lóð Vörðuskóla við Skólavörðuholtið.

Borgarráð samþykkti síðastliðinn fimmtudag tillögu um að setja upp færanlegt húsnæði fyrir ungbarnaleikskóla á lóð Vörðuskóla við Barónstíg. Leikskólinn mun taka 60 börn. 

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að málið hafi verið kynnt á fundi skóla – og frístundaráðs borgarinnar í dag. Gert er ráð fyrir að leikskólinn verði um 600 fermetrar og að hann verði tekinn í notkun á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Hann verður starfræktur í fjórum deildum fyrir börn frá 12 mánaða til 30 mánaða aldurs.

Í fréttatilkynningunni segir að þessi áform séu liður í „Brúum bilið“, aðgerðaáætlun borgarinnar um fjölgun leikskólaplássa, en markmið þess er að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, mæta barnafjölgun og stóraukinni þörf fyrir vistun yngri barna. 

Áætlaður stofnkostnaður við nýja færanlega leikskólann á Skólavörðuholtinu og skólalóð er 95 milljónir og árlegur leigukostnaður á húsnæði 32,4 milljónir króna.

„Leikskólinn verður svokölluð Ævintýraborg og á skilgreindum byggingarreit þar sem til stendur í fyllingu tímans að reisa viðbyggingu við Vörðuskóla,“ segir að lokum í tilkynningunni.

mbl.is