Gefa grænt ljós á bálstofu í Rjúpnadal

Rjúpnadalur.
Rjúpnadalur. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa samþykkt umsókn Trés lífsins ses. um að mega byggja allt að allt að 1.500 fermetra byggingu á stórri lóð norðan við Vífilsstaðavatn, þar sem verður bálstofa og bygging með salarkynnum fyrir tilefni á borð við skírnir, hjónavígslur og slíkt. Einnig verður á annarri hæð kyrrðar- og hugleiðslurými með 360° útsýni yfir sjóndeildarhringinn og höfuðborgarsvæðið með sýn til fjalla og hafs.

Rafrænt merkt tré

Nærri fyrirhugaðri byggingu, sem verður í svonefndum Rjúpnadal, verður minningagarður þar sem fólk getur sett ösku ástvina sinna í mold og gróðursett tré sem vex upp til minningar um hin látnu. Hvert tré verður merkt rafrænt og tengt minningasíðu þess sem undir því hvílir.

„Hugmyndir okkar um starfsemi og mannvirki eru komnar í gegnum bæði aðal- og deiliskipulag í Garðabæ svo við höldum ótrauð áfram,“ segir Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, stofnandi og forsvarsmaður Trés lífsins, í samtali við Morgunblaðið.

Sigríður Bylgja Sigþórsdóttir.
Sigríður Bylgja Sigþórsdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

Efnt verður til hönnunarsamkeppni meðal arkitekta um útlitið á fyrirhugaðri byggingu í Rjúpnadal. Húsið á að vera umhverfisvænt, umvefjandi, hannað fyrir fjölbreytta starfsemi og með fallegt yfirbragð. Verður óháð trúar- og lífsskoðunarfélögum en opið öllum. Í bálstofu Trés lífsins í fyrirhuguðum byggingum í Rjúpnadal verður keyptur líkbrennsluofn frá þýsku fyrirtæki sem hefur lengi framleitt slík tæki. „Við höfum fylgst með þróun þessara mála og heimsótt eina bálstofu í Hollandi. Við munum geta annað þeirri miklu fjölgun bálfara sem fyrirséð er á næstu árum og áratugum. Líklega tökum við við hlutverki bálstofunnar í Fossvogi sem er orðin gömul og lúin, enda hefur hún verið í starfsemi síðan árið 1948. Á ofninum okkar verður líka fullkominn mengunarvarna- og hreinsibúnaður til að fyrirbyggja alla mengun,“ segir Sigríður Bylgja.

Framsýni í Garðabæ

Forsvarsmenn Trés lífsins hafa átt í viðræðum við fulltrúa dómsmálaráðuneytsins um minningagarð, en lagabreytingar þarf til svo slíka staði megi útbúa víðar en við bálstofuna sem fyrirhuguð er í Rjúpnadal. Vitað er um áhuga í nokkrum sveitarfélögum annars staðar á landinu á að þar verði útbúnir slíkir garðar.

„Við höfum verið í sambandi við dómsmálaráðuneytið vegna þessara mála og bíðum nú eftir samþykki sýslumanns til að taka næstu skref í verkefninu. Yfirvöld í Garðabæ hafa tekið mjög vel í verkefnið og eru greinilega mjög framsýn í þróun þessara mála,“ segir Sigríður Bylgja. Áframhald undirbúnings nú velti á því hvenær öll tilskilin leyfi séu í hendi, en vænst sé að bygging og minningagarður verði tilbúin eftir þrjú til fimm ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert