Mikil spurn eftir lóðum í Skagafirði

Mikil eftirspurn eftir lóðum á Sauðárkróki.
Mikil eftirspurn eftir lóðum á Sauðárkróki. mbl.is/Árni Sæberg

Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsti í gær fjórtán einbýlishúsalóðir lausar til umsóknar við götuna Nestún á Sauðárkróki.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitastjóri í Skagafirði, segir eftirspurn eftir lóðunum umfram væntingar. 

Framlenging í skipulagningu

„Þetta er síðasta gatan í Túnahverfinu hjá okkur. Við erum að úthluta lóðum í fyrrihluta hennar núna og erum með framlengingu af henni í deiluskipulagsvinnu núna þar sem gert er ráð fyrir parhúsum,“ segir Sigfús Ingi. 

„Þetta var auglýst í gær og það er nú þegar kominn töluverður fjöldi af umsóknum. Það er mjög ánægjulegt hvað það er mikill áhugi á að byggja hér.“

Sigfús Ingi segir að nokkuð mikil uppbygging hafi átt sér stað á Sauðárkróki síðustu árin. Íbúafjöldi í sveitarfélaginu Skagafirði var þann 1. janúar 4.084 manns. 

Mikið byggt

Núna í byrjun september eru í byggingu í sveitarfélaginu Skagafirði: 15 einbýlishús á Sauðárkróki, eitt parhús á Sauðárkróki (tvær íbúðir), 2 fjölbýlishús á Sauðárkróki (21 íbúð), tvö einbýlishús í Varmahlíð, ásamt því að utan þéttbýlis eru 15 einbýlishús í byggingu.

Samtals eru þannig 55 íbúðir í byggingu í sveitarfélaginu núna.

Sigfús Ingi segir íbúðirnar vera komnar mjög mislangt á veg; sumar framkvæmdir nýhafnar, öðrum að verða lokið og allt þar á milli.

Á undanförnum árum hafa fleiri tugir íbúða og húsa byggst upp í Skagafirði og það virðist vera mikil eftirspurn eftir lóðum.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitastjóri í Skagafirði.
Sigfús Ingi Sigfússon, sveitastjóri í Skagafirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is