500 ungmenni gengu fylktu liði niður Suðurgötuna

500 ungmenni tóku þátt í skrúðgöngu Bergsins en sú tala …
500 ungmenni tóku þátt í skrúðgöngu Bergsins en sú tala táknar þann fjölda er hafa leitað ráðgjafar til Bergsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergið headspace hlaut í dag aukna fjárveitingu upp á 12 milljónir króna en þrjú ár eru liðin frá því að samtökin voru stofnuð í Iðnó þann 17. september árið 2018. Í tilefni afmælisins var skrúðganga haldin og mættu 500 ungmenni í hana en sú tala vísar í þann fjölda sem hefur leitað til Bergsins á síðustu tveimur árum. Var gengið niður Suðurgötuna og að Berginu fyrir hádegi í morgun með tónlist og skemmtun.

Sigþóra Bergsdóttir framkvæmdastjóri segir skrúðgönguna vel heppnaða og kveðst hún afar ánægð með framlagið sem þeim barst en Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mætti í dag og skrifaði undir samning með henni. Segir hún 12 milljónirnar hafa komið henni nokkuð á óvart. „Það var mjög gleðileg viðbót við daginn. Ég vissi nú bara af því í morgun eiginlega, af upphæðinni. Þetta er svona auka fjárveiting vegna Covid og gerir það að verkum að við getum ráðið til okkar fleiri ráðgjafa.“

Skrúðgangan fór niður Suðurgötuna og að húsnæðum samtakanna.
Skrúðgangan fór niður Suðurgötuna og að húsnæðum samtakanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergið veitir fría ráðgjöf og stuðning fyrir ungt fólk á aldrinum 12 til 25 ára. Að sögn Sigþóru eru engin skilyrði fyrir þjónustunni annað en aldurstakmarkið og er biðtíma haldið í lágmarki. „Við höfum enga þröskulda á því að þau komi, bara ef þeim líður illa eða finnst þeim þurfa að tala um eitthvað, hvað sem það er þá geta þau komið í ráðgjöf í Berginu. Við spyrjum engra spurninga og setjum engin skilyrði önnur en aldur.

Við þurfum öll hjálp einhvern tíman í lífinu, sérstaklega á þessum aldri, þá erum við að ganga í gegnum marga hluti og auðvitað eru margir sem eru að kljást við alvarlega hluti en bara að vera unglingur getur verið erfitt og þá er gott að vita að það sé einhver sem maður getur talað við.“

Vaxandi ásókn jákvæð

Að sögn Sigþóru hefur ásókn farið verulega vaxandi upp á síðkastið og því kemur aukið fjármagn sér sérstaklega vel.  

„Við höfum náð að manna ásóknina hingað til og það er enginn biðlisti. Við höfum alveg náð að sinna þessum fjölda og getum alveg sinnt einhverjum meiri fjölda. Þannig við bjóðum alla velkomna til okkar.“

Samtökin eru staðsett á Suðurgötu 10.
Samtökin eru staðsett á Suðurgötu 10. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að mati Sigþóru er aukinn áhugi á þjónustu Bergsins góðs viti. „Ég lít svo á að þetta sé mjög jákvætt. Ég lít ekki svo á að það sé vegna þess að unga fólkið í dag þurfi eitthvað meira á hjálp að halda en áður. Ég held að svona úrræði hefðu alveg nýst mér þegar ég var á mínum aldri. Við lítum svo á að þetta sé bara jákvætt að við séum til staðar fyrir þennan hóp á þessum tímapunkti í þeirra lífi og getum hjálpað þeim. Við lítum á okkur sem forvörn líka.“

Samtökin eru staðsett á Suðurgötu 10 og segir Sigþóra auðvelt að bóka tíma í gegnum heimasíðu Bergsins. Hvetur hún sem flesta að kynna sér starfsemina.

mbl.is