Vill að SFF rökstyðji þátttöku í umræðu um iðgjöld

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.
Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja. Árni Sæberg

Samkeppniseftirlitið krefst þess að Samtök fjármálafyrirtækja reiði fram skýringar og gögn sem rökstyðji hvers vegna Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, hafi blandað sér í umræðu um verðlagningu iðgjalda tryggingafélaga.

FÍB hefur gert upphæð iðgjalda bifreiðatrygginga á Íslandi að umtalsefni síðustu daga en Katrín svaraði þessum málflutningi FÍB með skoðanapistli á Vísi.

SFF óheimilt að verja verðlagningu

FÍB sendi vegna þessarar hagmunagæslu SFF erindi til Samkeppniseftirlitsins. Eftirlitið brást við beiðni FÍB og sendi erindi á SFF þar sem fram kom að „fyrirsvar fyrir tryggingafélögin öll sem eitt geti haft samkeppnishindrandi áhrif á markaðinn. SFF er óheimilt að verja verðlagningu aðildarfélaga sinna á opinberum vettvangi. Slíkt er ekki eðlilegt hlutverk hagsmunasamtaka keppinauta.“

Samkeppniseftirlitið gefur SFF frest til 29. september til að skila inn gögnum um möguleg afskipti samtakanna varðandi verðlagningu aðildarfélaganna. Þar er meðal annars óskað eftir afritum af öllum samskiptum samtakanna við aðildarfélögin frá 1. maí 2021.

Eftirlti Seðlabankans mikilvægt

FÍB sendi einnig erindi á seðlabankastjóra til þess að óska eftir viðbrögðum við verðlagningu ökutækjatrygginga og söfnunar í tjónasjóði. „Eftirlit Seðlabankans með verðlagningu á bílatryggingum er mjög mikilvægt þar sem vátryggingamarkaðurinn er fákeppnismarkaður með miklar aðgangshindranir. Í hópi skaðatrygginga vega ökutækjatryggingar þyngst. Ökutækjatryggingar eru lögboðnar og mynda stóran hluta útgjaldaliða á heimilum landsmanna,“ segir í tilkynningu FÍB.

Seðlabankinn hefur ekki brugðist við erindi FÍB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert