Endurnýja ekki samninga um hjólhýsasvæðið

Um 200 lóðir eru leigðar út í hjólhýsabyggðinni á Laugarvatni …
Um 200 lóðir eru leigðar út í hjólhýsabyggðinni á Laugarvatni og hafa þeir sem lengst hafa verið með hýsi þar verið þar frá upphafi, árið 1980. mbl.is/Jakob Fannar

Sveitastjórn Bláskógabyggðar hefur hafnað beiðni Samhjóls um endurskoðun ákvörðunar um að loka hjólhýsasvæðisins á Laugarvatni. 

Fram kemur í fundargerð, að lagður hafi verið fram undirskriftalisti 59 einstaklinga og fyrirtækja þar sem lagst sé gegn lokun hjólhýsasvæðisins á Laugarvatni.

Oddviti lagði hins vegar  til eftirfarandi afgreiðslu sem var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

„Í álitsgerð frá 16. nóvember 2020 er farið yfir lagalegan grundvöll fyrir rekstri hjólhýsasvæðis og í minnisblaði frá 1. september sl. er farið yfir þau atriði sem koma til skoðunar ákveði sveitarstjórn að halda úti skammtímastæði fyrir hjólhýsi í allt að fjóra mánuði á ári. Þar kemur m.a. fram að ráðast þyrfti í aðgerðir til að uppfylla öryggiskröfur vegna brunavarna.

Þá er rakin málsmeðferð gagnvart leigutökum, en þar sem rekstraraðili svæðisins er opinber aðili þarf að gæta að ákvæðum stjórnsýsluréttar. Einnig er gerð grein fyrir því að rekstur sveitarfélags á hjólhýsasvæði kann að vera í samkeppni við rekstur einkaaðila og þarf sveitarfélagið því að gæta að samkeppnissjónarmiðum, ákveði það að fara í reksturinn.

Í minnisblaðinu er einnig farið yfir útfærslu á rekstri skammtímastæðis fyrir hjólhýsi og kostnað við að halda áfram rekstri hjólhýsasvæðis á Laugarvatni með breyttum forsendum.

Sveitarstjórn samþykkir að fyrri ákvörðun um að samningar um hjólhýsasvæðið verði ekki endurnýjaðir standi óbreytt og hafnar beiðni Samhjóls um að heimiluð verði fjögurra mánaða viðvera yfir sumartímann og að hýsin standi á svæðinu með stöðuleyfi yfir vetrartímann.“

Fulltrúar lögreglustjórans á Suðurlandi og Brunavarna Árnessýslu skoðuðu hjólhýsasvæðið í maí á síðasta ári og gerðu margvíslegar athugasemdir við byggðina, sérstaklega eldvarnir. Í skýrslu þeirra kemur fram að fjarlægðarmörk eru ekki virt og pallar og skjólveggir tengist víða. Þá sé trjágróður mikill og auki sambrunahættu til muna. Vakin er athygli á að eldur hafi komið upp á svæðinu í nokkur skipti en lukka hafi ráðið því að ekki fór illa. Kröfðust embættin úrbóta.

mbl.is