Meinað um aðstoð í kjörklefa þrátt fyrir veikindi

Ellý Katrín Guðmundsdóttir og eiginmaður hennar Magnús Karl Magnússon
Ellý Katrín Guðmundsdóttir og eiginmaður hennar Magnús Karl Magnússon Ljósmynd/Aðsend

Magnús Karl Magnússon hefur sent frá sér kæru til kjörstjórnar vegna atviks sem átti sér stað í gær þegar eiginkonu hans, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, var meinað um aðstoð inni í kjörklefa við að kjósa.

Ellý, sem er lögfræðingur og fyrrverandi borgarritari og sviðsstjóri Reykjavíkurborgar, greindist með Alzheimer-sjúkdóminn fyrir nokkrum árum. Hjónin fóru í gær á kjörstað utan kjörfundar til að kjósa. Þegar röðin kom að Ellý upplýstu þau starfsmann á kjörstaðnum um stöðu hennar og fóru fram á að Magnús myndi fylgja henni inn í klefa sem aðstoðarmaður, þar sem hún ætti erfitt með að rita sjálf á seðilinn vegna sjúkdómsins. 

Þeim brá hins vegar í brún þegar kosningastjóri neitaði þeim að fara saman inn í kjörklefa þar sem hann taldi ástand Ellýjar ekki falla undir þau skilyrði sem einstaklingar þurfa að uppfylla samkvæmt lögum til að fá aðstoð inn í klefa. Þar sé einungis kveðið á um sjónleysi eða að hönd sé ónothæf.

Magnús áréttar að þó svo að Ellý beri fötlun sína ekki utan á sér þá sé hönd hennar vissulega ónothæf þegar komi að því að kjósa þar sem höndin láti ekki eðlilega að stjórn. Það geti því reynst mjög erfitt fyrir hana að bera sig rétt að þó hún viti upp á hár hvern hún vilji kjósa.

Kveðst hann þá hafa fengið þau svör til baka að ef Ellý væri ekki í standi til að fara ein síns liðs inn í kjörklefa þá hefði hún mögulega ekkert erindi að kjósa.

Mannréttindi brotin vegna ósýnileika sjúkdómsins

„Það er ekkert heldur í lögum sem segir að fólk missi kosningarétt sinn á grundvelli þessa sjúkdóms,“ sagði Magnús ákveðinn í samtali við mbl.is. Bætir hann við að þetta atvik endurspegli ósýnileika sjúkdómsins og að eftir atvikið hafi hann heyrt af fleiri tilfellum þar sem fólki með Alzheimer hafi verið neitað um þennan stuðning. „Það er mjög slæmt að mannréttindi fólks séu brotin á þeim grunni að fólk með Alzheimer beri ekki fötlunina utan á sér.“

Gekk ferlið snurðulaust fyrir sig í síðustu kosningum. Var þá engin athugasemd gerð við það að hann fengi að aðstoða eiginkonu sína við að kjósa. Segir hann fráleitt að kosningastjóri sé nú að setja sig í þá stöðu að dæma hvort Ellý geti kosið sjálf eður ei, án þess að hafa læknisfræðilega- eða persónulega innsýn í hennar mál. 

Að lokum fór kjörstjóri inn í klefa með Ellý og aðstoðaði hana við að kjósa. Magnús er þó enn ósáttur við framkomuna og telur hann fráleitt að eiginkona hans fái ekki sinn eigin fulltrúa með í klefann þar sem það sé hennar lögbundni réttur. „Hvaða einstaklingur með fötlun myndi misnota sér slíka aðstoð og til hvers,“ segir í færslu Magnúsar á Facebook.

mbl.is