Svandís þakkar Páli samstarfið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist þakka Páli Matthíassyni, fráfarandi forstjóra Landspítalans, fyrir samstarfið á undanförnum árum. Segir hún samstarfið hafa litast af fordæmalausu kjörtímabili heimsfaraldurs, en einnig mars konar öðrum verkefnum sem einkennist af sóknarhug fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu. Þetta kemur fram í færslu sem Svandís skrifar á Facebook.

Tilkynnt var um að Páll hefði óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri spítalans í dag eftir rúmlega átta ára starf.

Svandís nefnir sem dæmi um verkefnin byggingu meðferðarkjarna nýs Landspítala við Hringbraut, nýja heilbrigðisstefnu til ársins 2030, göngudeildarhús við Eiríksgötu, stóraukið samstarf forstjóra heilbrigðisstofnananna auk fjölmargra annarra framfaraverkefna.

Segist hún á persónulegum nótum þakka Páli fyrir góða viðkynningu, spjall og vangaveltur um heilbrigðismál, stefnur og strauma, geðheilbrigði, rannsóknir, tækifæri og áskoranir, stóra fundi og smáa, símtöl og skilaboð í gegnum ólgusjó og flókin úrlausnarefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert