Á pari við Wimbledon, Tour de France eða Formúluna

Lið Beyond Gaming og Unicorns of Love eigast við í …
Lið Beyond Gaming og Unicorns of Love eigast við í Laugardalshöll. Ljósmynd/Riot Games

Heimsmeistaramótið í League of Legends, sem hefst í Laugardalshöll 11. október stenst samanburð við íþróttaviðburði á borð við Wimbledon-risamótið í tennis, Tour de France-hjólreiðakeppnina eða Formúlu 1 kappaksturinn. 

Mikill hvalreki er fyrir Íslendinga að halda þetta risastóra rafíþróttamót á meðan greinin er enn í svona örum vexti.

Þetta segir Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar Íslandsbanka, í samtali við mbl.is.

Björn Berg Gunnarsson.
Björn Berg Gunnarsson. Ljósmynd/Íslandsbanki

 Ekki nein bóla

„Rafíþróttir eru núna komnar á svipaðan stað og tennis, hjólreiðar og jafnvel Formúla 1,“ segir Björn um verðlaunafé og tekjur í heimi íþróttanna. Björn Berg er sérfræðingur um hagfræði íþróttanna og vinnur nú að því að taka saman frekari tölulegar upplýsingar um heimsmeistaramótið.

„Þeir sem vinna stærstu mótin í rafíþróttum eru að fá meira en þeir sem vinna Wimbledon til dæmis eða Tour de France,“ bætir hann við. 

Björn segir að rafíþróttir séu í örum vexti og það sé útilokað að þær séu einhver bóla. Þrátt fyrir að markhópur rafíþrótta sé ansi afmarkaður, sé gróskan mikil og færist hún bara í aukana. 

Liðsmenn Detonation Focusme ganga sigurreifir af velli í Laugardalshöll eftir …
Liðsmenn Detonation Focusme ganga sigurreifir af velli í Laugardalshöll eftir leik í nýafstöðnum undanriðlum. Ljósmynd/Riot Games

Vitað er til þess að stærstu lið rafíþróttaheimsins ferðist um á einkaþotum og búi og æfi saman í glæsivillum víða um heim. 

Þar að auki eru vellauðugir fjárfestar, sem gjarnan eru þekktir fyrir fjárfestingar sínar í amerískum fótbolta, knattspyrnu eða körfubolta, farnir að fjárfesta í rafíþróttum, sem festir vinsældargrundvöll þeirra enn frekar í sessi. 

„Ef við erum að velta því fyrir okkur hvort rafíþróttir séu bara einhver bóla, þá held ég að það sé alveg útilokað. Þetta er þegar orðið þetta stórt þrátt fyrir að það séu ekki það margir árgangar, sem hafa alist upp með þessu. Það eru tiltölulega fáir yfir fertugu til dæmis, sem eru í markhópnum fyrir þessa íþrótt, en með hverju árinu sem líður bætist einn árgangur í hópinn,“ segir Björn og bætir við að með hverju árinu verður áhugafólk um rafíþróttir eldra og hefur þannig meira á milli handanna til þess að eyða í þátttöku eða áhorf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert