Hélt ræðu á dönsku krónprinsinum til heiðurs

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Eliza Reid forsetafrú og Friðrik …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Eliza Reid forsetafrú og Friðrik krónprins á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Friðrik krónprins Danmerkur kom hingað til lands í dag. Hann hóf heimsókn sína á kvöldverði á Bessastöðum í boði forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, og Elizu Reid forsetafrúar. Við tilefnið flutti Guðni gestum á Bessastöðum ræðu á dönsku.

Með prinsinum er tíu manna sendinefnd, sem hingað er komin til þess að ræða samstarf Danmerkur og Íslands á sviði sjálfbærra þróun lausna í orkumálum, eins og segir í tilkynningu frá skrifstofu forseta. 

Guðni og Eliza sitja til hliðar við Friðrik krónprins. Guðni …
Guðni og Eliza sitja til hliðar við Friðrik krónprins. Guðni hélt ræðu á dönsku, krónprinsinsum til heiðurs, bað kærlega að heilsa Mary prinsessu, ræddi um íslenska veðrið og íslenska náttúru áður en hann bað viðstadda að rísa úr sætum og skála fyrir krónprinsinum. mbl.is/Árni Sæberg

Kvöldverðinn á Bessastöðum sóttu einnig Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands, Kirsten Geelan, sendiherra Danmerkur á Íslandi, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, auk fulltrúa úr dönsku og íslensku viðskiptalífi.

Á morgun flytur forseti ávarp við setningu fundar dansk-íslensku sendinefndarinnar sem fram fer í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýri. Síðdegis á morgun skoða forseti og Friðrik krónprins saman danska varðskipið HDMS Triton, sem nú liggur við höfn í Reykjavík. Skipið sinnir eftirliti á norðurslóðum, meðal annars í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands, og fá forseti og krónprinsinn leiðsögn um skipið og störf áhafnar.

Nálgast má nánari dagskrá heimsóknar Friðriks krónprins á vefsíðu dönsku konungsfjölskyldunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert