Hitaveitustokkurinn í aðalhlutverki

Lagt er til að svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi verði …
Lagt er til að svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi verði að sérstöku þróunarsvæði og Bústaðavegi breytt í borgargötu. Þegar hefur verið ákveðið að lækka hámarkshraða á Bústaðavegi í 40 km/klst. Ljósmynd/ Reykjavíkurborg

Bygging fjölbýlishúsa á auðum svæðum við Miklubraut og hverfisgarður á svæðinu milli Fellsmúla og Ármúla eru dæmi um þær tillögur sem kynntar voru í dag fyrir nýtt hverfisskipulag í Háaleiti-Bústöðum.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að hverfisgarðar geti verið vettvangur fyrir ýmsar uppákomur og staði fyrir list í almenningsrými og skapað ný kennileiti innan hverfanna.

Í tillögunum er lögð áhersla á aukna borgarskógrækt og hverfiskjarna. Leitast verður við að gera vistvænum ferðamátum hátt undir höfði og tryggja aðgengi, óháð hreyfigetu.

Útfærslurnar lúta þannig að því að draga úr ónæði og mengun frá bílaumferð, bæta við íbúðum og bæta aðgengi að lyftulausum fjölbýlishúsum. Einnig eru í tillögunum hugmyndir um að efla og styrkja leiksvæði og græn svæði.

Í tillögunum eru hugmyndir um að efla og styrkja leiksvæði …
Í tillögunum eru hugmyndir um að efla og styrkja leiksvæði og græn svæði. Ljósmynd/ Reykjavíkurborg

Hverfissundlaug og upphafning hitaveitustokksins 

Gert er ráð fyrir að hverfissundlaug verði gerð miðsvæðis í Fossvogsdal, nálægt Fossvogsskóla og Snælandsskóla, í samræmi við fyrirliggjandi viljayfirlýsingu Reykjavíkur og Kópavogs sem samþykkt var í báðum sveitarfélögunum í mars 2021

Ein tillaga ráðgjafa hverfisskipulagsins er að svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi verði þróunarsvæði þar sem bæði þjónusta og íbúðabyggð verði efld.

Þá eru hugmyndir um að heimila byggingu fjölbýlishúsa á auðum svæðum á þróunarreit við Miklubraut og á horni Miklubrautar og Háaleitisbrautar.

Lagt er til að „hefja gamla hitaveitustokkinn til vegs og virðingar á ný sem hryggjarstykki Bústaðahverfisins og kennileiti sem styrki bæði staðaranda og bæti hverfisvitund“ og að stokkurinn verði hluti af göngu- og hjólastígakerfi borgarhlutans.

Ljósmynd/ Reykjavíkurborg

Sýning og gönguferðir um hverfin

Svæðið milli Fellsmúla og Ármúla er skilgreint í vinnutillögum hverfisskipulagsins sem hverfisgarður með viðeigandi grænum innviðum.

Reykjavíkurborg heldur úti vefsvæði þar sem fólk getur kynnt sér tillögurnar betur, en auk þess fer fram sýning í Austurveri frá 14. október til 20. október

Þar verður hægt að skoða tillögurnar og ræða við sérfræðinga um hverfisskipulagið. Einnig verður boðið upp á gönguferðir um hverfin þar sem sérfræðingar og ráðgjafar hverfiskipulagsins fara yfir tillögurnar.

mbl.is