Kom ekki til greina að borga gjaldið

Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík.
Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Unnið er að því að finna út hvað fór úrskeiðis í netöryggiskerfi Háskólans í Reykjavík eftir að skólinn sætti netárás í síðustu viku. Þetta segir Ragnhildur Helgadóttir rektor í samtali við mbl.is.

Fylgja ráðleggingum fagmanna

Hún segir ólíklegt að tölvuþrjótarnir hafi náð að afrita gögn en þó sé ekki hægt að útiloka það. 

Spurð hvort starfsfólk skólans sé óánægt með að skólinn hafi ekki borgað lausnargjaldið segist Ragnhildur ekki hafa orðið vör við það. Starfsfólk hafi spurt hvort þau hafi hugsað um að borga gjaldið og segir Ragnhildur að það hafi ekki komið til greina. 

„Það eru eindregin tilmæli lögreglu og tölvuöryggisfyrirtækja, til þeirra sem verða fyrir svona glæpum, að borga ekki og vera ekki í samskiptum við þá sem láta svona. Í öðru lagi myndi það senda bandvitlaus skilaboð og ýta undir svona glæpi hefðum við greitt þetta. Í þriðja lagi ef, sem við vitum ekki og þykir ólíklegt, það eru afrit af tölvupóstum þá hverfa þau ekki sjálfkrafa við það að við borgum.“

Ekki í fullkomnu standi

Ragnhildur segir að nú sé verið að skoða hvað gerðist, í samráði við netöryggisfyrirtæki, og svo verði gerðar nauðsynlegar úrbætur á netöryggismálum skólans.

Við vitum að það var nýttur veikleiki á póstþjóni okkar. Þó er okkur sagt að við séum með þetta í nokkuð góðu standi en við erum klárlega ekki með þetta í fullkomnu standi – annars hefði þetta ekki gerst. Það má alltaf gera betur.“

mbl.is