Farþegum í Leifsstöð brugðið vegna sprengingar

Gestum í brottfararsal á Keflavíkurflugvelli var brugðið þegar að læti …
Gestum í brottfararsal á Keflavíkurflugvelli var brugðið þegar að læti frá sprengingum vegna framkvæmda ómuðu um salinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Farþegum í brottfararsal á Keflavíkurflugvelli var nokkuð brugðið í gærkvöldi þegar læti bárust inn í flugstöðina frá sprengingu vegna framkvæmda. Flugstöðin nötraði eins og öflugur jarðskjálfti hefði riðið yfir, á sjöunda tímanum í gærkvöldi.

Unnið er að stækkun flugstöðvarinnar en sprengingar vegna jarðvinnu fyrir nýja 20 þúsund fermetra viðbyggingu hafa staðið yfir síðan um miðjan ágúst.

Grettir Gautason, staðgengill upplýsingafulltrúa Isavia, kveðst ekki hafa orðið var við að gestum bregði vegna láta frá framkvæmdunum hingað til en þær hafa staðið yfir í nokkrar vikur.

Gestum og starfsfólki gert viðvart

Að sögn Grettis var þetta fyrsta sprengingin í um það bil tvær vikur og á hann ekki von á að aftur verði sprengt. „Þeir eru eiginlega búnir að sprengja allt. Það vantaði bara eitthvað smá upp á.“

Segir hann að bæði starfsfólki og gestum hafi verið gert viðvart um sprenginguna og því hefðu lætin ekki átt að koma á óvart. „Þetta er allt eftir bókinni. Það fara sírenur í gang tveimur mínútum fyrir og öryggisverðir rýma svæðið þar sem þetta á að vera. Það eru skilti út um allt sem gefa þetta til kynna og það fara póstar á alla starfsmenn.“

Er þá einnig passað upp á að sprengt sé á þeim tímum þegar sem fæstir eru á vellinum, eða seinnipartinn. 

Gestur á flugvellinum sem kvartaði undan óþægindum vegna hávaðans, kveðst ekki hafa tekið eftir skiltum en að sírenurnar hefðu vissulega farið í gang. Aftur á móti hefði ekki legið fyrir á þeim tímapunkti hvað hljóðin táknuðu og því hafi þær ekki komið að miklu gagni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert