Böllin voru ekki fagrar samkomur

Kristinn Þorsteinsson hóf kennslu við Fjölbrautaskólann í Garðabæ haustið 1991 …
Kristinn Þorsteinsson hóf kennslu við Fjölbrautaskólann í Garðabæ haustið 1991 og hefur fengist við flest innan skólans, „ég hef gegnt flestum störfum innan skólans fyrir utan að vera húsvörður eða matráður“. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kláraði kennslufræðina þarna vorið '91 og fór svo bara að leita mér að vinnu og sá þá að það var auglýst staða í Garðabænum,“ segir Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ, en um þessar mundir eru 30 ár liðin síðan hann hóf fyrst störf við skólann sem hann nú stjórnar og brást Kristinn vel við þeirri beiðni að segja frá ferlinum og hvernig FG hefur dafnað í hans höndum.

„Ég var ráðinn í fulla stöðu þarna um haustið við kennslu félagsgreina, kenndi félagsfræði, stjórnmálafræði, sálfræði og einhverja fjölmiðlafræði, sem var nú alveg á mörkunum kannski þar sem ég var bara búinn að læra fræðilega fjölmiðlafræði og hafði ekki mikla menntun í henni,“ segir Kristinn, sem í einum námsáfanganum rak þann sem hér skrifar út úr tíma í Fjölmiðlafræði-203 á vorönn 1992 fyrir að trufla kennslu og bauð sama nemanda frí eina kennslustund önnina á undan til að fara í klippingu á þeim tíma sem ritari skartaði síðu hári hvers nú sjást fá merki.

„En ég var ungur maður þarna og treysti mér í hvað sem var,“ segir Kristinn og á þar ekki við hárprýði nemanda síns heldur eigið hæfi til að kenna fjölmiðlafræði. „Við höfðum kennslubók í fjölmiðlafræðinni, nokkuð sem ekki var alltaf hægt að ganga að í félagsgreinum,“ segir Kristinn frá.

Endurvarpsstöð á hjóli fyrir Rás 2?

Hann lagði stund á stjórnmálafræði sem meginfag og fjölmiðlafræði aukalega í háskólanum á sínum tíma. „Svo ákváðum við Doddi vinur minn í einhverjum flýti að fara í kennslufræði, vorum bara með BA-próf og skelltum okkur bara í þetta í HÍ, það var nánast eini háskólinn á þeim tíma,“ segir Kristinn af námi sínu.

Stúdentshópurinn í maí 2021 en vorútskriftin er ein þriggja stúdentsútskrifta …
Stúdentshópurinn í maí 2021 en vorútskriftin er ein þriggja stúdentsútskrifta á árinu eftir að þriggja anna kerfið var tekið upp sem Kristinn ber vel söguna. Ljósmynd/Aðsend

Hann naut þegar nokkurra vinsælda fyrsta veturinn í FG, en sá er hér skrifar var nemandi Kristins frá fyrstu byrjun í Fjölmiðlafræði-103 í fjölbrautaskólanum, sem þá var í húsi með sál við Lyngás í Garðabæ. Fór kennarinn hafnfirski ekki í grafgötur með drjúgt álit sitt á Rás 2 og er við bættist að hann kom jafnan hjólandi til kennslu úr nágrannabænum leið ekki á löngu uns út kvisaðist meðal gárunga skólans að Kristinn og hjólið væru í raun endurvarpsstöð fyrir Rás 2.

Kristinn hlær dátt. „Sko, málið er það að ég hef aldrei verið mikill útvarpsmaður, ég hlustaði aldrei mikið á útvarp enda ekki eftir miklu að slægjast, Lög unga fólksins og eitthvað svona. Svo kemur Rás 2 og það var þó alla vega eitthvað sem hægt var að hlusta á og ég hlustaði svolítið á hana, en ekkert mikið, ég hef ábyggilega bara verið að stríða ykkur, en ég var alltaf á hjóli, það er rétt, enda stutt úr Hafnarfirðinum yfir til ykkar,“ rifjar Kristinn upp.

Á hann góðar minningar frá þessum fyrstu árum sínum í FG þá?

„Já, þetta var mjög gaman,“ svarar skólameistarinn án umhugsunar, „kannski var ekki allt jafn skemmtilegt, þetta var mikil vinna, ég kenndi mjög mikið, samt var ég ekkert búinn að ákveða það á þessum tíma að verða kennari beint, ég fór í framhaldsnám til Hollands veturinn eftir og var ekki búinn að marka mér framtíð á þessum tíma. Konan mín er læknir og hún þurfti að fara í framhaldsnám og við þurftum að taka umræðu um hvert við ætluðum að fara og þetta átti bara að vera svona millibilsstopp í Garðabænum veturinn '91 til '92,“ játar Kristinn, en sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir.

„Sá að ég yrði bara í þessu“

Úr varð að Kristinn dvaldi í Hollandi í fjögur ár og lauk þar meistaraprófi í alþjóðastjórnmálum. „Svo er ég að koma heim og var á leið til Flórída og hitti þá Aðalbjörgu [Helgadóttur, fagstjóra félagsgreina í FG] á flugvellinum og hún sagði mér að aftur væri verið að auglýsa eftir kennara í félagsgreinum í skólanum. Þá fer ég og hitti Þorstein [Þorsteinsson, þáverandi skólameistara] bara nánast samdægurs eða daginn eftir, þetta er 1996, og ég fékk starfið strax,“ segir Kristinn. Þá um veturinn hafi hann svo áttað sig á að örlög hans væru ráðin. „Ég sá að ég yrði bara í þessu, ég er ágætur í þessu og ég ætlaði bara að vera í þessu það sem eftir er,“ játar hann.

Stúdentar í febrúarútskrift á þessu ári kvaddir með ávarpi. Kristinn …
Stúdentar í febrúarútskrift á þessu ári kvaddir með ávarpi. Kristinn réðst til skólans í því sem hann ætlaði sér að hafa millibilsástand fyrir 30 árum en er þar enn að frátalinni námsdvöl í Hollandi. Ljósmynd/Aðsend

Kristinn kveðst hafa náð góðu sambandi við Þorstein skólameistara sem hafi falið honum ýmis störf, „og ég var fljótlega farinn að gera mig þykkan þarna innan skólans,“ játar Kristinn og brosir út að eyrum á skjánum, en örlögin höguðu því svo að þótt sá sem hér ritar væri í heimsókn á Íslandi þegar viðtalið var tekið brást heimsókn til Kristins í FG þar sem hann sat heima í sóttkví.

Kristinn hefur upplifað verkföll kennara frá fleiri hliðum en margir, sem nemandi, kennari og skólameistari, og spjallið berst að langvinnu og erfiðu kennaraverkfalli á haustdögum árið 2000. „Þá voru launin mín það lág að ég skammaðist mín fyrir að segja hvað ég væri með í laun,“ segir skólameistarinn og rifjar upp verkfall árið 2014 þegar gríðarlegt bil var að hans sögn milli kennara og annarra opinberra starfsmanna.

Bjóst ekki við að fá stöðuna

„Kennslan er gríðarlega mikilvægt starf en samt er sjálfstraust kennarastéttarinnar ákveðið vandamál auk þess sem virðingu skortir fyrir starfinu. Við fengum ágæta hækkun 2014 en nú er svo komið að maður spyr sig hvort við séum enn að sigla í sama farið eða hvort okkur takist að halda í við launaþróun annarra stétta,“ segir Kristinn.

Við starfslok. Snjólaug Elín Bjarnadóttir aðstoðarskólameistari, sem á sér áratuga …
Við starfslok. Snjólaug Elín Bjarnadóttir aðstoðarskólameistari, sem á sér áratuga feril við skólann, og Kristinn kveðja Svavar Braga Jónsson þýskukennara, Huldu Friðjónsdóttur skrifstofustjóra og Leif Helgason íslenskukennara. Ljósmynd/Aðsend

Hann telur nýliðun í stéttinni ágæta og nefnir sem dæmi að blaðamaður þekkti líklega ekki marga kennara í FG nú á tímum. „Þú ert náttúrulega orðinn hundgamall,“ segir Kristinn og glottir við tönn áður en hann víkur talinu yfir í að hann telji mikilvægt að fjölga karlmönnum í kennarastétt sem sé ærið verkefni næstu ára, jafnvel næstu kynslóða.

Kristinn tók við stöðu aðstoðarskólameistara af Gísla Ragnarssyni árið 2005 þegar Gísli varð skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla. „Svo hættir Þorsteinn árið 2010 og ég sæki um starfið, er einn margra umsækjenda, ég bjóst alls ekki við að ég fengi stöðuna, en ég fékk hana, enda bjó ég þarna yfir gríðarlegri reynslu, ég þekkti skólann gjörsamlega í ræmur þá eins og nú, ég hef gegnt flestum störfum innan skólans fyrir utan að vera húsvörður eða matráður,“ segir Kristinn kíminn.

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ hefur löngum þótt vinsæll meðal nemenda úr nágrannabæjunum Hafnarfirði og Kópavogi, svo lengi að blaðamaður kynntist þaðan mörgum öðlingnum á sinni tíð fyrir þremur áratugum og þekkir enn.

Nýstúdínur með verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur í viðskiptagreinum.
Nýstúdínur með verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur í viðskiptagreinum. Ljósmynd/Aðsend

„Já, það er nú einu sinni þannig að Hafnfirðingum finnst allt í lagi að fara í Garðabæ og Kópavogsbúum í Hafnarfjörð, en Garðbæingar hafa frekar viljað fara inn í Reykjavík ef þeir fara ekki í sinn heimaskóla. Við vorum náttúrulega alltaf í ströggli með húsnæði, skólinn var í þremur húsum við Lyngás, en árið 1997 flytjum við í nýtt húsnæði við Skólabraut og þá fer að fjölga í skólanum, í dag erum við með 740 nemendur og einhverja 70 eða 80 í fjarnámi sem er heldur meira en við ráðum við, skólinn er byggður fyrir fimm til 600 nemendur og við erum að biðja um að fá viðbyggingu, það mál er bara statt einhvers staðar í ráðuneytinu, en Garðabær styður okkur mjög í því að fá þessa viðbyggingu og við þurfum bara að fylgja því vel eftir,“ segir Kristinn.

Viðhorf foreldra gagnvart drykkju breytt

Hann telur stemmninguna hafa aukist í skólanum við að flytja úr þremur húsum í eitt 1997 auk þess sem áfengisneysla nemenda sé nú orðið mun minna vandamál en áður. „Hún er miklu minna mál núna en fyrir 20 og 30 árum, því er varla saman að jafna, ungt fólk í dag er að flestu leyti miklu heilbrigðara en bæði mín kynslóð og þín kynslóð,“ segir Kristinn sem er fæddur árið 1962 svo því sé haldið til haga.

Himnesk hollusta. Mötuneytið býður upp á hafragraut alla morgna og …
Himnesk hollusta. Mötuneytið býður upp á hafragraut alla morgna og þarna næla tveir kennarar og tveir náms- og starfsráðgjafar sér í orku fyrir átök dagsins. Ljósmynd/Aðsend

Hann telur forvarnastarf þar hafa margt að segja auk þess sem viðhorf foreldra gagnvart áfengis- og vímuefnaneyslu sé breytt. „Nú er orðið mjög algengt að krakkar byrji ekki að drekka fyrr en um 18 ára aldur, Ísland stendur mjög vel þegar kemur að áfengis- og vímuefnaneyslu ungs fólks, ég man þegar maður var að halda utan um skólaböllin fyrir aldamót, það voru ekki fagrar samkomur get ég sagt þér,“ rifjar Kristinn upp.

„Þegar ég var nýnemi í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði 1977 – '78 var ballið í Festi svo rosalegt að það var ekki haldið ball í skólanum í hálft ár á eftir, fyrirsögnin í Morgunblaðinu var „Allt brotið og bramlað í Festi“. Þetta var 1977 og ástandið er mun betra í dag, fólk hegðar sér mun betur núna,“ segir Kristinn.

Mál Páls flókið

Skrif Páls Vilhjálmssonar, kennara við skólann, á lýðnetinu vöktu nýlega þjóðarathygli og varla stætt á öðru en að hreyfa við því umræðuefni úr því sem komið er, en blaðamaður sammæltist við Kristin um viðtalið vikum áður en skrif Páls struku netverjum andhæris.

„Þetta er ákaflega flókið mál,“ segir Kristinn, en staðfestir að ekki verði hróflað við stöðu Páls. „Hvenær fara skrif starfsmanna í frítíma sínum að hafa áhrif á störf þeirra sem framhaldsskólakennara? Við þessu er ekkert einfalt svar. Málfrelsi er hornsteinn lýðræðisins og mjög erfitt að setja tjáningu manna skorður. Jafnvel þótt maður sé ákaflega ósammála skrifum þeirra. Samt er það svo að það er einhver lína. Nemendur þurfa að geta treyst því að þeir njóti sanngirni innan skólans og eiga rétt á því að líða vel í skólanum,“ heldur skólameistarinn áfram.

Kristinn segir forvarnastarf hafa haft gríðarmikið að segja þegar kemur …
Kristinn segir forvarnastarf hafa haft gríðarmikið að segja þegar kemur að áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna og kveður drykkju nemenda hafa snarminnkað með árunum. Nú sé ástandið býsna ólíkt því sem var þegar Flensborgarskólinn í Hafnarfirði hélt annálað ball í Festi á tíma Kristins þar, árið 1977. Ljósmynd/Aðsend

„Hvernig á svo að meta hvenær einhver er farinn yfir línuna? Það er engin spurning að skrif Páls hafa valdið skólanum tjóni. Gefur það mér rétt til að hrófla við starfi hans hér í skólanum? Líklega ekki. Starfsöryggi opinberra starfsmanna er mikið og mér er ekki kunnugt um að opinberum starfsmanni hafi verið sagt upp vegna skrifa á opinberum vettvangi og það staðist fyrir dómi. Nemendur og forráðamenn fá bréf þar sem sjónarmið skólans eru sett fram. Hvort mönnum finnist nóg að gert eða of mikið verður svo bara að koma í ljós,“ segir Kristinn að lokum og við leggjum umræðuefnið í salt í bili.

Þriggja anna kerfið gott

Hann segir skólanum hafa vaxið fiskur um hrygg á mörgum sviðum, ekki síst hvað leiklistarlíf snerti. Þar hafi ný leiklistarbraut haft mikið að segja og ekki síst leiklistarfélagið Verðandi sem hafi notið vinsælda meðal nemenda. Kristinn kveðst reikna með að útskrifa um 170 nemendur næsta skólaárið í þriggja anna kerfi sem er töluvert mikið meira en þegar blaðamaður útskrifaðist frá skólanum árið 1993 í hópi um 60 nemenda í vorútskrift sem þá var metfjöldi. Nú útskrifar Kristinn yfir 100 nemendur í maí sem þó er aðeins ein þriggja útskrifta.

Hann kveðst ánægður með þriggja anna kerfið. „Ég talaði fyrir því lengi, við vorum reyndar ekki fyrst með það, Menntaskólinn við Sund var á undan okkur með þetta en við byrjuðum að tala um þetta 2014, nemendur eru í færri námsáföngum í einu og þar af leiðandi fleiri tímum í sömu áföngum og þetta hentar nemendum ákaflega vel,“ segir skólameistarinn.

Kristinn segir íslenskuna eiga verulega undir högg að sækja og …
Kristinn segir íslenskuna eiga verulega undir högg að sækja og séu margir nemendur nánast tvítyngdir auk þess sem fornsögur og -kvæði höfði nú mun síður til nemenda en forðum daga. Ljósmynd/Aðsend

Íslenskukennsla er eilíft þrætuepli skólakerfisins. Er þar nægilega vel haldið á spöðum á öld þegar þjóðtungan á undir sífellt þyngra högg að sækja gagnvart samfélagsmiðlum, tölvuleikjum og streymisveitum?

„Íslenskan á vissulega undir högg að sækja,“ svarar Kristinn alvarlegur í bragði, „við erum með nemendur sem nálgast að vera tvítyngdir, það er orðið mun erfiðara að ná til nemenda með íslenskum fornsögum, Völuspá og slíku svo við þurfum virkilega að halda vöku okkar og ekki síður að bæta útgáfu kennslubóka á íslensku. Ef við gætum okkar ekki verður íslenskan bara tungumál sem við notum á tyllidögum,“ segir hann og kveður þróunina ískyggilega.

„Menn geta haft sína skoðun á því hvað er gott og hvað er slæmt en þetta er ekki góð þróun í dag og íslenskan er í ákveðinni hættu. Skólakerfið þarf að ganga á öllum strokkum til að tryggja viðgang íslenskunnar sem er mjög lifandi mál og við þurfum að gæta þess vandlega að hún verði ekki bara að einhverju stofnanamáli,“ segir Kristinn Þorsteinsson með festu, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ sem sannarlega hefur vaxið og dafnað í hans höndum, enda mál manna að Kristinn hafi tekið við lyklunum að góðu búi úr hendi Þorsteins Þorsteinssonar forvera síns.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »