Arnaldur hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ásamt þeim Arnaldi Indriðasyni og …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ásamt þeim Arnaldi Indriðasyni og Veru Illugadóttur. mbl.is/Unnur Karen

Arnaldur Indriðason, einn fremsti glæpasagnahöfundur okkar Íslendinga, hlaut í dag Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. Þá hlaut Vera Illugadóttir, dagskrárgerðarkona á RÚV, sérstaka viðurkenningu.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar eru veitt þeim sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar, að því er fram kemur í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Fléttar saman gamalt og nýtt

Í rökstuðningi dómnefndar er meðal annars vísað til þess að Arnaldur hafi í verkum sínum fléttað saman gamalt og nýtt með listilegum hætti. Höfundur hafi nýtt sér vettvang glæpasagna til að kafa í sögu einstaklinga og þjóðar, þar sem hann hefur meðal annars greint þjóðfélagsmein og rakið sig að rótum þeirra. Þá hafa bækur hans notið mikilla vinsælda meðal landsmanna á öllum aldri, úr öllum stéttum íslensk þjóðfélags. Hafa verk Arnalds því skipt sköpum í að viðhalda og auka lestraráhuga Íslendinga.

Í þakkarræðu sinni lýsti Arnaldur Jónasi Hallgrímssyni sem ódauðlegu skáldi og sagði hann það sérstakan heiður að taka á móti þessum verðlaunum. Margt af því fegursta sem íslenskan geymir hafi komið frá Jónasi. Kveðst Arnaldur taka þessu sem áskorun til að gera betur enda sé mikilvægt að bækur séu skrifaðar á móðurmáli Jónasar.

Bækur Arnaldar mikilvæg brú fyrir okkar tungumál

Fáir hafa í seinni tíð breitt út fagnaðarerindi tungumáls okkar líkt og verðlaunahafi ársins, sem með höfundarverki sínu hefur ekki aðeins stuðlað að meira læsi þjóðarinnar með því að færa okkur Íslendingum spennandi bækur, heldur einnig orðið til þess að ryðja fleiri íslenskum höfundum braut með því að vekja athygli heimsins á íslenskum bókmenntum. Bækur Arnaldar hafa nú verið þýddar á rúmlega 40 tungumál og þær þýðingar eru afar mikilvæg brú fyrir okkar tungumál og menningu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þegar hún afhenti verðlaunin.

Eftir verðlaunaafhendinguna í dag slæst Arnaldur í hóp fleiri rithöfunda á borð við Gerði Kristnýju, Þórarin Eldjárn, Þorstein frá Hamri, Kristínu Marju Baldursdóttur, Steinunni Sigurðardóttur og Vigdísi Grímsdóttur.

Vera hlaut sérstaka viðurkenningu

Vera Illugadóttir dagskrárgerðarkona á RÚV hlaut einnig sérstaka viðurkenningu. Vera hefur gert garðinn frægan með hlaðvarpinu Í ljósi sögunnar sem situr gjarnan á toppnum yfir vinsælustu hlaðvörp landsmanna.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur m.a. fram að horft hafi verið til þess að umræddur dagskrárliður höfði til fólks á öllum aldri með mismunandi áhugasvið. Hefur Veru tekist að ná til útbreidds hóp hlustenda með grípandi framsetningu söguefnis og miðlar hún fróðleik sínum áfram á frjóu og fallegu máli á tilgerðarlausan en jafnframt áhrifaríkan hátt.

„Ég vil þakka kærlega fyrir þessa viðurkenningu,“ sagði Vera þegar hún tók við verðlaununum og bætti við að það væri mikill heiður að fá að segja Íslendingum þessar sögur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert