Samningur um nýtt húsnæði vegna myglu á lokametrum

Mygla greindist í norðausturálmu Hagaskóla.
Mygla greindist í norðausturálmu Hagaskóla. Ljósmynd/Hagaskóli

Samningum um tímabundið húsnæði fyrir kennslu 8. bekkjar í Hagaskóla eru nú á lokametrunum en mygla hefur greinst í húsnæðinu. Undirbúningur flutninga hófst í morgun og er áætlað að kennsla hefjist í nýju húsnæði á mánudag.

Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Frumniðurstöður frá verkfræðistofunni Eflu sem bárust í gær sýna að mygla hafi greinst í múr í norðaustur álmu í Hagaskóla þar sem leki hefur verið. Ákveðið var að kanna gæði innivistar í álmunni í kjölfar þess að ábending barst skólastjórnendum í október.

Ekki um annað að ræða

Segir í tilkynningunni að strax hafi verið leitað til sérfræðinga til að rannsaka húsnæðið og var loftræstikerfið tekið út og hreinsað, ásamt því að sýni voru tekin úr gólfi og múr.

„Unnið er samkvæmt nýjum verkferlum sem fara í gang um leið og grunur beinist að rakaskemmdum eða myglu og voru niðurstöðurnar strax kynntar fyrir stjórnendum og starfsfólki. Ákveðið var að engin kennsla myndi fara fram í þessum hluta húsnæðisins þar til endurbætur hafa farið fram, og því ekki um annað að ræða en að kennsla yrði felld niður í 8. bekk í dag, fimmtudag á meðan áætlanir væri gerðar um framhaldið,“ segir í tilkynningunni.

Dagskrá hefur verið skipulögð fyrir nemendur á morgun og munu þau fara í vettvangsferð. Þá verður einnig fundað með starfsfólki þar sem sérfræðingar munu fara yfir stöðuna á húsnæðinu og því sem er framundan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert