Nýtt 1.400 manna hverfi í Grindavík

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú erum við búin að ná vopnum okkar, hætt að hugsa bara um eldgosið og getum horft til framtíðar,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í samtali við Morgunblaðið.

Í vikunni var opnað fyrir umsóknir um lóðir í nýju hverfi í Grindavík, Hlíðarhverfi. Um er að ræða fyrsta áfanga í uppbyggingu hverfisins, alls 77 lóðir. Á svæðinu er að mestu gert ráð fyrir lóðum fyrir íbúðarhúsnæði, en auk þess er gert ráð fyrir sex deilda leikskóla og verslun. Íbúðarbyggðin verður lágreist, einnar og tveggja hæða sérbýlishús og tveggja til þriggja hæða lítil fjölbýlishús. Gatnagerð í tengslum við fyrsta áfanga hverfisins lýkur í desember og stefnt er að afhendingu lóða 15. janúar á næsta ári.

„Við höfum þegar fengið ágætisviðbrögð við þessum lóðum og væntum þess að þetta verði eftirsóknarvert og vinsælt hverfi. Þegar hverfið verður fullbyggt er gert ráð fyrir að þar verði allt að 404 íbúðir sem ættu að rúma 1.200-1.400 manns. Það dugar okkur kannski langleiðina út þennan áratug,“ segir bæjarstjórinn.

Hann hefur ágætisástæðu til að vera bjartsýnn. Íbúum í Grindavík hefur fjölgað um rúm 13% á síðustu fimm árum en lóðaframboð hefur verið takmarkað. Slegist var um sjö lóðir við Víðigerði fyrir skemmstu. Alls bárust 27 umsóknir um lóðirnar og þurfti að viðhafa spiladrátt um þær allar.

„Það hefur verið mikil eftirspurn en það er ekkert húsnæði til sölu í bænum. Ungt heimafólk vantar húsnæði og svo eru margir eldri borgarar sem vilja minnka við sig og fara í hóflegri stærð. Fasteignasalar segja líka að mikið sé spurt af aðilum utan Grindavíkur. Þetta er góð blanda,“ segir Fannar.

Hann segir að allt verði til alls fyrir fjölskyldufólk í hinu nýja hverfi. Verið sé að byggja viðbyggingu við skólann sem tilbúin verði með vorinu og teikningar að nýjum leikskóla í Hlíðahverfi séu tilbúnar. Þá sé íþróttaaðstaða til fyrirmyndar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »