Íslendingar klifruðu upp El Capitan

Frá göngunni upp El Capitan.
Frá göngunni upp El Capitan. Ljósmynd/Aðsend

Rafn Emilsson og Hilmar Ingimundarson komust á föstudaginn upp á topp klettaveggsins El Capitan í Yosemite-þjóðgarðinum í Kaliforníu, en veggurinn er tæplega 1.000 metra hár og þverhníptur.

Fram kemur í facebookfærslu Arnars Þórs Emilssonar, bróður Rafns, að þeir hafi gist í fjórar nætur í hengirúmi, hangandi utan á veggnum, sem er vinsælt viðfangsefni klifrara um heim allan. Hann bendir á að The Nose sé ein frægasta klifurleið Norður-Ameríku og að hún liggi upp mest áberandi og stærsta klettinn, El Capitan.

Rafn Emilsson og Hilmar Ingimundarson.
Rafn Emilsson og Hilmar Ingimundarson. Ljósmynd/Aðsend

„En fyrir 2 Íslendinga sem hafa engin tök á því að komast í svona stóra kletta til að æfa sig er þetta stórmerkilegur áfangi hjá þeim Rafni og Hilmari,“ skrifar hann og óskar þeim til hamingju með að vera fyrstu Íslendingarnir til að klifra þessa sögufrægu leið.

Eins og sjá má er veggurinn þverhníptur.
Eins og sjá má er veggurinn þverhníptur. Ljósmynd/Aðsend

Keppa við tímann 

Í samtali við mbl.is segir Arnar Þór afrek þeirra Rafns og Hilmars vera heilmikið. „Þetta er klettaklifur sem menn komast ekkert í hérna á Íslandi. Þetta er öðruvísi. Þetta er svo stórt og mikið og þó að menn hafi stundað klettaklifur á Íslandi í mörg ár er þetta önnur tækni sem þarf að beita,“ greinir hann frá og bætir við þarna sé líka keppt við tímann.

„Frá því að þú ferð frá jörðinni ertu með ákveðið mikið vatn með þér. Ef tímaplanið gengur ekki upp þá klárast vatnið og þá er orkan bara búin.“

Ljósmynd/Aðsend

Töfðust vegna kórónuveirunnar

Spurður segir hann þá félaga hafa ætlað að klífa vegginn fyrir löngu síðan en kórónuveirufaraldurinn hafi tafið þá. Um leið og Bandaríkin opnuðu landamæri sín fyrir bólusettum Evrópubúm ákváðu þeir að drífa sig af stað.

Ljósmynd/Aðsend

Eins og kemur fram í facebookfærslu Arnars Þórs eru þeir fyrstu Íslendingarnir til að klífa þessa leið. Hann nefnir að tveir aðrir Íslendingar hafi farið aðra leið upp þennan klett og endar hún ekki á hæsta punktinum eins og þessi gerir. „En sú leið er líka mjög mikið afrek,“ tekur hann fram.

El Capitan er í Yosemite-þjóðgarðinum í Kaliforníu.
El Capitan er í Yosemite-þjóðgarðinum í Kaliforníu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert