Stutt í að leyft verði að bólusetja 5-11 ára

Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands og …
Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands og deildarstjóri smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu. Ljósmynd/Aðsend

Alls greindust 194 með kórónuveirusmit í fyrradag, þar af voru 100 í sóttkví við greiningu. Auk þess greindust tíu smit á landamærunum.

Reiknað er með að Lyfjastofnun Evrópu gefi leyfi til bólusetningar 5-11 ára barna með bóluefni Pfizer fyrir næstu mánaðamót, jafnvel í lok þessarar viku. Þetta kom fram á blaðamannafundi 18. nóvember sl.

Niðurstöður tveggja hópa í tvíblindri rannsókn voru lagðar til grundvallar þegar Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) veitti leyfi til bólusetninga 5-11 ára barna með bóluefni frá Pfizer 1. nóvember sl., að sögn Ingileifar Jónsdóttur, prófessors í ónæmisfræði við Háskóla Íslands. Í öðrum hópnum var skoðuð vernd gegn Covid-19, ónæmissvar og öryggisatriði. Notaðar voru niðurstöður fyrir hinn rannsóknarhópinn varðandi öryggi bólusetningarinnar. Ekki var búið að birta niðurstöður mælinga á ónæmissvari og vernd í þeim hluta rannsóknarinnar. Rannsókn á öryggi Pfizer-bóluefnisins hjá 5-11 ára börnum byggist á 4.600 þátttakendum (3.100 bólusettum og 1.538 sem fengu lyfleysu). Engar alvarlegar aukaverkanir komu fram hjá neinum þátttakanda. Ingileif sagði að sambærileg gögn hefðu verið lögð fyrir sérfræðinefndir Lyfjastofnunar Evrópu.

„Við byggjum okkar leyfisveitingar á ákvörðunum Lyfjastofnunar Evrópu og erum með fólk sem situr í matsnefndinni og tekur þátt í matinu,“ sagði Ingileif. Lyfjastofnun hér hefur venjulega gefið samdægurs út eins leyfi og Lyfjastofnun Evrópu. Kanada, Ísrael og fleiri ríki hafa einnig gefið leyfi fyrir bólusetningum 5-11 ára barna og byggja þau væntanlega á sömu gögnum.

Aðrir bóluefnaframleiðendur en Pfizer hafa einnig gert rannsóknir og munu niðurstöður þeirra fylgja umsóknum um leyfi til að nota bóluefni þeirra við bólusetningar 5-11 ára barna. Umsóknirnar eru misjafnlega langt á veg komnar.

Ingileif segir að gögn sem lögð eru fyrir Lyfjastofnun Bandaríkjanna séu öllum opin minnst viku fyrir fundinn þar sem þau eru tekin til afgreiðslu. Það eru bæði gögn frá lyfjaframleiðendum og eins skýrsla matsnefndar Lyfjastofnunarinnar. Lyfjastofnun Evrópu birtir gögnin um leið og hún birtir ákvörðun sína í málinu. Oftast er um sömu gögn að ræða og í Bandaríkjunum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert