Mjólkurfernan fer í 176 krónur

Ákveðið var að taka væntanlegar launahækkanir í mjólkurvinnslunni um áramót …
Ákveðið var að taka væntanlegar launahækkanir í mjólkurvinnslunni um áramót inn í verðið nú til þess að ekki þurfi að hækka verðið aftur strax í janúar. mbl.is/​Hari

Útsöluverð á eins lítra mjólkurfernu í stórmörkuðum hækkar í dag úr 170 krónum í 176-177 krónur, miðað við að álagning verslana haldist svipuð. Kemur hækkunin í kjölfar ákvörðunar verðlagsnefndar búvara sem hækkaði verð á mjólkurafurðum til bænda og afurðastöðva. Ákveðið var að taka væntanlegar launahækkanir í mjólkurvinnslunni um áramót inn í verðið nú til þess að ekki þurfi að hækka verðið aftur strax í janúar.

Verð á mjólkurlítra til bænda hækkar um 3,38 krónur og verður tæpar 105 krónur á lítra. Er það vegna hækkunar á aðföngum til búanna og launa. Verðlagsgrundvöllurinn hefur hækkað um nærri eina og hálfa milljón frá því í mars, þegar síðast var ákveðið að hækka verð á mjólk. Sem dæmi má nefna að veruleg hækkun hefur orðið á áburði og fóðri og þá hefur vélaliðurinn hækkað töluvert sem og launaliður.

Heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara hækkar almennt um 3,81% nema hvað verð á mjólkurdufti helst óbreytt. Ástæðan er hækkun á verði til bænda og aukinn vinnslukostnaður mjólkursamlaga. Að auki ákvað verðlagsnefndin að taka við þessa verðlagsákvörðun tillit til launahækkana sem verða hjá samlögunum um áramót til þess að ekki þurfi að koma til nýrrar verðlagsákvörðunar strax í upphafi næsta árs.

Jólarjóminn verður dýrari

Heildsöluverð á eins lítra nýmjólkurfernu verður frá og með deginum í dag 152 krónur, án virðisaukaskatts. Miðað við núgildandi verð í stórmörkuðum hækkar smásöluverð úr um 170 krónum í 176-177 krónur, og er þá miðað við óbreytta álagningu verslunarinnar. Lítri af D-vítamínbættri mjólk gæti hækkað úr 198 krónum í 205 krónur. Hálfur lítri af jólarjóma gæti farið úr 588 krónum í 608 krónur, ef miðað er við verð í ótilgreindum stórmarkaði og að álagning verslunarinnar verði hlutfallslega sú sama og nú er.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert