Ríkisstjórnin minni á matseðil á Tenerife

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sparaði nýrri ríkisstjórn ekki stóru orðin í ræðu sinni á Alþingi í kvöld.

„Þetta fjögurra ára ríkisstjórnarsamstarf minnir mig eiginlega mest á þokkalegan veitingastað á Tenerife. Sem sýnir litríkt, ferskt og brakandi salat, ásamt kjöti og kartöflum en er nú upplitað og ekkert sérstaklega kræsilegt,“ sagði Logi í ræðu sinni.

Hann sagði samstarfið einkennast af afturhaldssemi, kjarkleysi og fálæti andspænis ójöfnuði, líkt og hagkvæmnishjónaband ólíkra og ástríðufullra einstaklinga.

Pólitískur stöðugleiki í stað jafnaðar

Logi gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að huga meira að pólitískum stöðugleika heldur en að ráðast gegn ójöfnuði og fátækt. 

Þá sagðist hann vera sammála ríkisstjórninni um nauðsyn þess að ráðast gegn loftslagsógninni og mæta tæknibreytingum. Logi gagnrýndi hins vegar ný fjárlög sem hann sagði ekki gera ráð fyrir aukningu til loftlagsmála umfram það sem gert var ráð fyrir í síðustu ríkisstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert