Stórstjörnur klæðast bol með mynd af Bryndísi

Bryndís veit ekki hvernig myndin komst í hendur Virgil eða …
Bryndís veit ekki hvernig myndin komst í hendur Virgil eða af hverju hann ákvað að nota hana. Ljósmynd/Aðsend

„Mér finnst þetta fyrst og fremst ógeðslega skemmtilegt. Það er alveg gaman að það sé mynd af manni framan á bol sem stórstjörnur eru í,“ segir Bryndís Inga Reynis í samtali við mbl.is, en andlit hennar prýðir bol sem hönnuðurinn Virgil Abloh hannaði fyrir merki sitt Pyrex fyrir einhverjum árum.

Stórstjörnur á borð við Kanye West hafa klæðst bolnum opinberlega á síðustu árum, en síðast í gær birtist mynd af dóttur hans, North West, í bolnum á síðustu sýningu Virgil hjá Louis Vuitton, en hann lést í síðustu viku. Bryndís birti mynd af North og fleiri stjörnum í umræddum bol á Instagram síðu sinni í dag og hefur færslan vakið verðskuldaða athygli.

Það furðulega við þetta allt saman er Virgil fékk ekki leyfi fyrir notkun myndarinnar sem var tekin fyrir tíu árum af ljósmyndaranum Katrínu Braga. Bryndís veit því ekki hvernig myndin komst í hendur Virgil eða hvað varð til þess að hann ákvað að nota hana í hönnun sína.

Fór að fá sendar myndir af stjörnum í bolnum

„Þetta var áhugaverkefni hjá okkur; mér og fyrirsætunum, stílista og ljósmyndara. Okkur langaði að gera verkefni fyrir okkar möppur,“ útskýrir Bryndís en hún var aðeins 17 ára þegar myndin var tekin. Með henni í myndatökunni voru tvær aðrar fyrirsætur, Brynja Jónbjarnardóttir og Kolfinna Kristófersdóttir. Stella Björt Bergmann var stílisti og Margrét Sæmundardóttir sá um förðun.

Hér má sjá North West í bolnum.
Hér má sjá North West í bolnum. Ljósmynd/Instagram

„Svo voru myndirnar birtar á Flickr síðu Katrínar og einhverju síðar verðum við varar við að það er búið að hanna bol með þessari mynd. Ég fékk til að mynda senda mynd þar sem Kanye West sást í bolnum.

Þetta er allt rosa skrýtið og við vitum ekki alveg hvernig þetta kom til, hvar maðurinn fann þessa mynd og af hverju hún var notuð. Sérstaklega þar sem hún var notuð í leyfisleysi.

Svo fór ég að fá sendar myndir af fleiri stjörnum sem klæddust bolnum, síðast í gær af North West sem er komin í bolinn.“

Hitti Virgil fyrir tilviljun í partýi

Bryndís viðurkennir að henni hafi brugðið fyrst þegar hún fékk senda mynd af Kanye

„Ég var bara í sjokki. Ég eiginlega trúði þessu ekki og fólk í kringum mig hélt að þetta væri eitthvað grín, af því ég grínast sjúklega mikið. En þetta er satt, þetta er mynd af mér. Þetta er mjög skemmtilegt og skrýtið en líka leiðinlegt, sérstaklega núna þegar Virgil er látinn, þá eru þessir bolir eflaust orðnir miklu verðmætari.“

Bryndís bendir á að bolurinn sem North klæddist í gær hafi verið eitt af fyrstu hönnunarverkum Virgil og því séu verðmætin væntanlega töluverð.

„Við vitum því ekki alveg hvernig við eigum að snúa okkur í þessu,“ segir Bryndís en hún og ljósmyndarinn, Katrín Braga, hafa rætt þetta mál í gegnum tíðina.

Málið hefur meira að segja verið rætt við Virgil sjálfan, en sú ótrúlega tilviljun sér stað fyrir nokkrum árum að Katrín hitti hann í partýi í Kanada, gekk upp að honum og ræddi við hann um myndina.

„Hann gekkst alveg við þessu og sagðist ætla að vera í sambandi, en gerði það svo ekki. Það er áhugavert að maður sem vinnur við hönnun skuli ekki skilja að það er í rauninni verkastuldur að fara þessa leið. Það er svolítið sérstakt,“ segir Bryndís.

Getur vel hugsað sér að fara með málið lengra

„Ég var einmitt að skoða hinar myndirnar úr þessari myndatöku. Þær eru auðvitað orðnar tíu ára gamlar og ég er töluvert barnalegri á þessum myndum en ég er í dag. En þetta eru mjög skemmtilegar myndar. Þetta átti að vera nornaþema og græni liturinn í hárinu á mér er bara grænt hársprey.“

Nokkur ár eru síðan Bryndís fékk fyrst sendar myndir af Kanye í bolnum, þannig í raun dúkkaði málið aftur upp á yfirborðið í gær eftir að hafa legið í dvala um tíma.

„Þegar þetta kom út fyrir tíu árum þá voru samfélagsmiðlarnir ekki orðnir svona stórir, þannig mér fannst bara gaman að deila þessu. Það eru ekkert margir sem lenda í þessu,“ segir hún hlæjandi.

Bryndís segist alveg geta hugsað sér að skoða þetta mál eitthvað frekar og fara með það lengra, en myndi þá gera það í samráði við ljósmyndarann. „Þetta er svolítið okkar allra sem tóku þátt í þessari myndatöku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert