Bók RAX besta ljósmyndabók ársins

Mynd eftir Ragnar Axelsson ljósmyndara af Heklu.
Mynd eftir Ragnar Axelsson ljósmyndara af Heklu. mbl.is/RAX

Nýjasta bók Ragnars Axelssonar sem þekktur er sem RAX, Hetjur norðurslóða  - Arctic Heroes á ensku - er af stjórnendum ljósmyndaþáttar franska stórblaðsins Le Monde valin besta ljósmyndabók ársins.

Bókin er sameiginleg útgáfa íslenska forlagsins Qerndu og hins þekkta þýskala forlags Kehrer, sem dreifir bókinni víða um lönd. Eins og kunnugt er hefur Ragnar markvisst skrásett líf veiðimanna og byggðir á Grænlandi frá árinu 1988 og í þessari nýju bók hyllir hann grænlenska sleðahundinn sem hefur gegnum tíðina veitt veiðimönnum nauðsynlega fylgd í erfiðum og ísköldum heimi.

Í umsögn ritsjóra ljósmyndaþáttar Le Monde, Benjamin Favier, segir að viðurkenningin fyrir bestu ljósmyndabók ársins falli nú í skaut heimskautaljósmyndarans merka, Ragnars Axelssonar. Verk hans voru á árinu á stórri sýningu á La Gacilly-hátíðinni í Frakklandi, þar sem þau vöktu mikla athygli, en Favier segir bókina votta virðingu hinu mikla hugrekki sleðahundanna sem maðurinn treystir oft fyrir lífi sínu úti á heimskautaísnum.

mbl.is