Erfið sýn inn í líf utangarðsfólks

Gísli smellir kossi á Bjarna vin sinn á þeim tíma …
Gísli smellir kossi á Bjarna vin sinn á þeim tíma sem hann var að mynda fyrir bókina. Bjarni er edrú í dag og þeir halda sambandi. Ljósmynd/Gísli Hjálmar Svendsen

„Ástæðan fyrir því að ég valdi að vinna heimildarverkefni um utangarðsfólk er sú að fósturbróðir minn tók sitt eigið líf í fangaklefa á Hverfisgötunni árið 2006. Hann var mjög illa farinn af sínum veikindum sem fíkill, en auk þess hef ég sjálfur þurft að takast á við alkóhólisma, en náði tökum á því á sínum tíma,“ segir Gísli Hjálmar Svendsen ljósmyndari, en bók hans Utangarðs kom út á dögunum. Bókin geymir ljósmyndir af utangarðsfólki í Reykjavík sem Gísli tók yfir margra ára tímabil.

„Þessi myndasería er hluti af lokaverkefni mínu í námi hjá Ljósmyndaskólanum. Ég byrjaði að mynda þennan hóp fólks árið 2009 þegar ég var enn áhugaljósmyndari og ég hélt mig fast við þetta verkefni þegar ég var í Ljósmyndaskólanum. Ég reyndi að finna flöt á því að sýna hvernig líf utangarðsfólks er, og þá með fullri virðingu fyrir sjúkdómnum, viðkomandi einstaklingum og aðstæðum. Aðallega til að koma því á framfæri að alkóhólismi og önnur fíkn er gríðarlega alvarlegur sjúkdómur sem þarfnast annarra viðbragða af samfélaginu en að skaffa fólki aðstöðu í gámum og rétta því Bónuspoka með matvælum. Virkir fíklar þurfa að fá efnin sín, sama hvað tautar og raular. En það er til lausn, og hana má m.a. finna í meðferðum, sem stofnanir og félagasamtök bjóða upp á. Það er alltof oft verið að hringla með þetta helsjúka fólk í popúlískum útfærslum yfirvalda. Það er sorglegt og nýjasta dæmið er smáhýsi sem verið er að planta hér og þar. Þetta er fáránleg hugmynd að mínu mati, bæði fyrir umhverfið og sérstaklega þessa einstaklinga, sem eru veikir og þurfa heilbrigðisþjónustu en ekki smáhýsi eða önnur úrræði sem einkennast meira af því að koma viðkomandi einstaklingum frá almannasjónum en að taka heildstætt á vanda þeirra. Ef það er eitthvað sem bókin lýsir vel, þá er það einmitt framangreint.“

Jói, aðalpersóna bókarinnar, var iðinn við að mála.
Jói, aðalpersóna bókarinnar, var iðinn við að mála. Ljósmynd/Gísli Hjálmar Svendsen

Jói tók alltaf öllum vel

Bókin er um erfitt málefni og myndirnar eru á köflum grimmar, en þær opinbera líka ofurviðkvæmni þessa fólks. Gísli segir að vissulega hafi tekið tíma að vinna sér traust og fá að vera fluga á vegg hjá þeim og taka myndir.

„Þar sem ég er sjálfur með þennan sjúkdóm og var virkur alkóhólisti á sínum tíma, þá þekkti ég til aðalsögupersónu bókarinnar, hans Jóhanns Vísis Gunnarssonar, sem er hetja þessarar bókar. Hann tók alltaf öllum rosalega vel, þar á meðal mér. Þó að fólk sé svona veikt, þá vill það félagsskap og félagsskapur einhvers sem er edrú er kærkominn, því þá er hægt að tala við einhvern sem er sæmilega í lagi. Ég var fyrir vikið frekar vinsæll í hópnum, en auðvitað þurfti ég stundum að forða mér þegar menn fóru að rífa upp hnífa,“ segir Gísli og bætir við að félagar hans hafi ekki verið viðkvæmir fyrir því að myndir af þeim birtust almenningi.

„Það var ekki vandamál, ég var með uppáskrifað leyfi frá þeim öllum og þau voru tiltölulega í lagi þegar þau gáfu samþykki sitt. Ég gerði þeim grein fyrir um hvað þetta snerist og þau voru flest mjög áhugasöm um verkefnið, að ég væri að vinna heimildarverk um utangarðsfólk í gegnum ljósmyndir. Auðvitað kynntist ég sumum vel, til dæmis Bjarna og Erlu konu hans, en þau eru edrú núna og við höldum góðu sambandi. Ég bað um að fá að mynda brúðkaup þeirra og gaf þeim ljósmyndabók af því í brúðkaupsgjöf. Ég fylgdi þessu fólki sumu eftir og ég er enn að vinna að verkefni um hann Atla minn, sem er einn þeirra sem myndir eru af í bókinni,“ segir Gísli og bætir við að honum þyki vænt um þetta fólk, alveg sérstaklega um Jóa.

„Því miður eru fáir enn á lífi úr hópi þessa fólks og þegar birtast myndir af þeim í þeirra ömurlegu aðstæðum, þá er það erfitt og mjög viðkvæmt mál fyrir alla sem tengjast þeim. Eftir að Jói lést átti ég góðan fund með einni dóttur hans, við fórum yfir þetta allt áður en ég tók endanlega ákvörðun um að gefa bókina út. Hún var sátt við bókina en hafði vissulega áhyggjur af börnum sínum, þegar þau sæju þessar myndir af afa sínum, en henni fannst boðskapurinn skipta meira máli en svo að hún léti það stoppa verkefnið. Með útgáfu bókarinnar verður fólk vonandi meira upplýst um hvað alkóhólismi og fíkn er skelfilegur sjúkdómur, hvað þetta er stórt samfélagsmál og að það er ekki nóg að setja niður íbúðargáma hér og þar og leyfa fólkinu að vera þar. Það þarf eitthvað meira að koma til og bókin er vonandi hluti af því.“

Lengra viðtal við Gísla má nálgast í Morgunblaðinu í dag.

Heimasíða: www.ghs.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »