Kláruðust tveimur dögum fyrir aðfangadag í fyrra

Af jólatrjáasölunni á Flugvallarvegi sem hófst í gær.
Af jólatrjáasölunni á Flugvallarvegi sem hófst í gær. mbl.is/Óttar

Jólatrjáasala Flugbjörgunarsveitar Reykjavíkur á Flugvallarvegi 7 opnaði í gær en salan hefur gengið sæmilega þessa helgi að sögn Ingva Stígssonar gjaldkera. Í fyrra náðu færri að kaupa en vildu en sveitin tók fleiri tré inn í ár til að anna eftirspurninni. 

„Við kláruðum tveimur dögum fyrir aðfangadag í fyrra minnir mig. Við tókum að vísu meira inn í ár svo vonandi kemur fólk ekki að tómum kofanum en reynslan sínir að það er betra að vera í fyrra fallinu og geyma þetta ekki fram á síðustu stundu.“

Næsta helgi verði stærst

Ef marka má fyrri ár verður mest að gera næstu helgi í jólatrjáasölunni. „Það er svona oftast sú helgi sem stærst hjá okkur,“ segir Ingvi en sveitin býður einnig upp á netverslun með heimsendingu. 

Eins og sjá má á þessar mynd er handfrjáls sprittstöð …
Eins og sjá má á þessar mynd er handfrjáls sprittstöð á jólatrjáasölunni en viðskiptavinum býðst líka að panta tré að heiman. mbl.is/Óttar

Þó netverslunin hafi notið nokkurra vinsælda í fyrra selur verslunin á Flugvallarvegi ennþá meirihluta trjáa.

„Flestir vilja fá tækifæri til að skoða tréð, en þetta er ágætis hlutfall sem pantar og þá reynum við að velja mjög fallegt tré“.

Fjórar tegundir á boðstólum

Í jólatrjáasölu Flugbjörgunarsveitarinnar er boðið upp á nordmannsþin (normannsþin), stafafuru, blágreni og rauðgreni. Nordmannsþinurinn kemur frá Danmörku en íslensku jólatrén, þ.e. grenið og furan, koma frá Skógræktarfélagi Íslands.

Jólatrjásalan á Flugvallarvegi verður opin til klukkan 22 alla daga fram að aðfangadegi en þá lokar hún klukkan 13.

Trén koma ýmist frá Íslandi eða Danmörku.
Trén koma ýmist frá Íslandi eða Danmörku. mbl.is/Óttar
mbl.is