Stórsýningu frestað fram yfir áramót

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frumsýningu á stórsýningunni Framúrskarandi vinkonu hefur verið frestað fram yfir áramót. Þetta segir í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu.

„Framúrskarandi vinkona er einstaklega viðamikil og glæsileg sýning, sem við verðum að geta sýnt við betri aðstæður en núverandi reglugerð býður upp á,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri í tilkynningunni.

Leikhúsum óheimilt að selja veitingar í hléi

Samkvæmt núgildandi sóttvarnarreglum og þeirri óbreyttu reglugerð, sem tekur í gildi á miðnætti, er leikhúsgestum skylt að framvísa hraðprófi sem gert hefur verið innan 48 klst. en það getur orðið sérstaklega örðugt í framkvæmd yfir hátíðarnar, að því er greint frá í tilkynningunni. Þá er er leik­hús­um óheim­ilt að selja veit­ing­ar í hléi. Þrátt fyr­ir það er ekk­ert sem bann­ar að af­henda vatns­glös al­gjör­lega frítt í hléi.

Leik­hús­stjór­um stóru leik­hús­anna tveggja finnst þetta skjóta skökku við og von­ast til þess að þetta ákvæði verði fellt úr gildi þegar ný reglu­gerð renn­ur sitt skeið eft­ir tvær vik­ur í mesta lagi.

„Gerð verða tvö hlé á sýningunni og við höfum orðið vör við mikinn áhuga leikhúsgesta á að gera enn meira úr leikhúsheimsókninni, með því að njóta ljúffengra, ítalskra veitinga í hléum, en slíkt er ekki heimilt nú. Við viljum gera gestum okkar kleift að njóta þessarar einstöku leikhúsveislu til fulls, og höfum því ákveðið að fresta frumsýningu í þeirri von og trú að sóttvarnarreglur verði ekki jafn íþyngjandi í upphafi nýs árs,“ segir Magnús Geir um sýninguna Framúrskarandi vinkona.

Vilja bjóða gestum upp á kjöraðstæður

Allt frá því faraldurinn hófst hafi leikhúsin þurft að laga sig að síbreytilegum aðstæðum og því í raun makalaust hve vel Þjóðleikhúsinu hefur gengið á þessum erfiðu tímum, að sögn Magnúsar.

„Við höfum fundið mikinn meðbyr með sýningum okkar og áhorfendur hafa verið tilbúnir til að takast á við aðstæðurnar með okkur. Sem dæmi má nefna að þegar gluggi opnaðist í haust sýndu áhorfendur að þeir voru sannarlega leikhúsþyrstir og tryggðu sér miða í Þjóðleikhúsið sem aldrei fyrr.“

Hann segir sýningar enn í fullum gangi á fjölmörgum verkum í Þjóðleikhúsinu en þar sem Framúrskarandi vinkona er stórsýning þyki óheppilegt að sýna hana við ríkjandi reglur.

„Okkur finnst miklu varða að geta boðið gestum okkar að upplifa hana við kjöraðstæður. Við ákváðum því að bíða aðeins með frumsýninguna og láta okkur hlakka til stórsýningarinnar í janúar.“

Nýir sýningartímar og nákvæm frumsýningardagsetning verður staðfest fyrir vikulok. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert