Þolendur geta fylgst betur með stöðu mála

Gáttin byrjar sem tilraunaverkefni í eitt ár fyrir alla þolendur …
Gáttin byrjar sem tilraunaverkefni í eitt ár fyrir alla þolendur kynferðisbrota í umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þolendur kynferðisbrota geta betur fylgst með stöðu mála sinna hjá lögreglu á sérstakri þjónustugátt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem opnaði í dag. Brotaþoli getur þar skráð sig inn með rafrænum skilríkjum og öðlast meiri upplýsingar um stöðu máls en eftir því hefur verið kallað að sögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta er auðvitað mjög mikilvægt skref hjá okkur til að bæta þjónustu okkar við þolendur kynferðisbrota,“ segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Ákall um betri upplýsingagjöf

Skrefið er tekið sem hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda um meðferð kynferðisbrota frá árinu 2018 og í samræmi við niðurstöður þjónustukönnunar meðal þolenda þar sem 75% sögðust ánægð með þjónustu lögreglu en 88% töldu sig ekki hafa nægilegar upplýsingar um stöðu máls síns.

„Það hefur komið ákall frá þolendum kynferðisbrota að þau geti fylgst betur með hvar málið er statt. Gáttinni er ætlað að bæta úr þessu,“ segir Halla Bergþóra og bætir við að fleiri rannsóknir hafi sýnt fram á að mikilvægi meiri og betri upplýsingagjöf fyrir þolendur.

Eitt af því sé að þolendur viti um það bil eftir hversu langan tíma þau geti búist við upplýsingum um stöðu mála sinna.

„Þetta er auðvitað mjög mikilvægt skref hjá okkur til að …
„Þetta er auðvitað mjög mikilvægt skref hjá okkur til að bæta þjónustu okkar við þolendur kynferðisbrota,“ segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Gáttin byrjar sem tilraunaverkefni í eitt ár fyrir alla þolendur kynferðisbrota í umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

„Síðan ef það gengur vel þá er auðvitað ætlunin að þetta gæti orðið fyrir allt landið,“ segir Halla Bergþóra en en verkefnið er í samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra. Ef góða raun gefur sjá þau fyrir sér að vefgáttin muni í framtíðinni ná til fleiri brota svo sem heimilisofbeldi og líkamsárásir. „Já, það er svona framtíðarsýnin okkar.

Þetta er auðvitað tilraunaverkefni og við þurfum að rýna í þetta og erum alltaf tilbúin að gera betur ef það er það sem þarf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert