Fernar kosningar ógiltar í fyrri tilraun

Kort/mbl.is

Sveitarfélögum landsins fækkar um sex eftir sveitarstjórnarkosningar á vori komanda, ef íbúar viðkomandi sveitarfélaga samþykkja sameiningu. Stykkishólmsbær og Helgafellssveit eru meðal þeirra svæða sem stefna að sameiningu. Þar var skráð saga misheppnaðrar sameiningar á árunum 1994 og 1995.

Íbúar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa samþykkt sameiningu og tekur hún gildi við sveitarstjórnarkosningar. Á þremur svæðum verða greidd atkvæði um miðjan febrúar en óákveðið er hvenær kosið verður á því fjórða.

Skrautleg saga

Nú hafa Stykkishólmsbær og Helgafellssveit tekið upp formlegar sameiningarviðræður og skipað í samstarfsnefnd. Þar er stefnt að atkvæðagreiðslu í mars.

Íbúar Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar samþykktu í atkvæðagreiðslu 16. apríl 1994 að sameinast og bæjarstjórn var kjörin í kjölfarið. Sú kosning var úrskurðuð ógild vegna formsatriða, sameining hafði verið auglýst eftir að framboðsfrestur rann út. Kosið var að nýju en sú atkvæðagreiðsla var einnig úrskurðuð ógild þar sem upphafleg atkvæðagreiðsla um sameiningu var úrskurðuð ógild vegna þess að atkvæðaseðlarnir þóttu of þunnir. Lögmaður íbúa í Helgafellssveit sem var á móti sameiningu fór með málið alla leið í Hæstarétt og hafði þar sigur. Í endurteknum sameiningarkosningum í apríl 1995 féll sameining á jöfnum atkvæðum í Helgafellssveit, 25 greiddu atkvæði með og jafnmargir á móti. Í framhaldi af því þurfti að kjósa að nýju í bæjarstjórn og hreppsnefnd og komust forystumenn hjá því að efna til fimmtu kosninganna með því að einum lista var stillt upp í hvoru sveitarfélagi og voru þeir sjálfkjörnir.

Þar fyrir utan hafa íbúar greitt atkvæði um stóra sameiningu á Snæfellsnesi en sú hugmynd var felld.

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, segir að ferlið nú hafi hafist með samtölum hans og oddvita Helgafellssveitar.

Það er talið auðvelda sameiningu að allir helstu málaflokkar eru reknir sameiginlega, það er að segja að Helgafellssveit kaupir þjónustu grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla, slökkviliðs og stjórnsýslu skipulags- og byggingarmála og félagsmála af Stykkishólmsbæ. Einnig er horft til hvatningar ríkisins um fækkun sveitarfélaga og 600 milljóna sameiningarframlags úr Jöfnunarsjóði sem þessi sveitarfélög eiga kost á.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert