Stjórnvöld brotleg vegna auglýsinga

ESA telur Ísland hafa brotið í bága við EES-reglur með …
ESA telur Ísland hafa brotið í bága við EES-reglur með þátttöku sinni í auglýsingaherferð „Íslenskt, láttu það ganga.“ mbl.is/Árni Sæberg

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur Ísland hafa brotið í bága við EES-reglur með þátttöku sinni í auglýsingaherferð sem hvetur neytendur til að velja íslenskar vörur og þjónustu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA.

ESA sendi í dag rökstutt álit til Íslands vegna þátttöku yfirvalda í herferð þar sem fólk á Íslandi er hvatt til að velja íslenskar vörur og þjónustu. Í álitinu kemst ESA að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar á grundvelli EES-samningsins til að tryggja frjálsa vöruflutninga og frelsi til að veita þjónustu.

Ekki hægt að vísa í Covid-19 

Herferðin byggir á samningi íslenskra stjórnvalda og félagasamtaka úr einkageiranum og hefur einkum falist í kynningarherferð undir slagorðinu „Íslenskt, láttu það ganga“ sem sendir þau skilaboð að val á íslenskum vörum og þjónustu skili sér aftur til neytenda.

Í kjölfar upplýsingabeiðni sem ESA sendi Íslandi í júní 2020 héldu íslensk stjórnvöld því fram að herferðin væri hluti af víðtækari aðgerðum til að styðja við atvinnulífið og fyrirtæki landsins til að bregðast við áhrifum Covid-19 heimsfaraldursins en að mati ESA réttlæta aðstæður á Íslandi í tengslum við Covid-19 ekki ráðstöfunina.

Ríkið fær þrjá mánuði til að svara

Þá segir í tilkynningunni að herferð sem miðar að því að vernda innlend fyrirtæki og vörur á kostnað fyrirtækja og vara frá öðrum EES-ríkjum sé andstætt grundvallarmarkmiði EES-samningsins um að efla viðskipta- og efnahagstengsl innan EES.
 
Rökstutt álit dagsins er annað skrefið í formlegu samningsbrotaferli ESA gegn Íslandi. Íslensk stjórnvöld fá nú þrjá mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Eftir það getur ESA ákveðið að vísa málinu til EFTA-dómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert