Tók alla stærðfræðiáfanga sem stóðu til boða

Ljósmynd/Fjölbrautaskólinn við Ármúla

Ngan Hieu Nguyen Dang gerði sér lítið fyrir á dögunum og dúxaði við útskrift Fjölbrautaskólans við Ármúla með ágætiseinkunnina 9,0, eftir einungis tveggja og hálfs árs skólagöngu. Þá hlaut hún einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í spænsku, stærðfræði og viðskiptagreinum.

Að sögn Ngan Hieu kom á óvart að hún skyldi hafa dúxað en hún hafði þó stefnt að þessu markmiði og unnið hörðum höndum að því síðastliðin ár. Var því afar ánægjulegt þegar hún uppskar þennan glæsilega árangur en hún skráði sig meðal annars tvisvar sinnum í sumarskóla og tók minnst átta áfanga á hverri önn fyrir sig til að ná markmiði sínu.

Ferlið var vitaskuld ekki auðvelt og segir Ngan Hieu samkomutakmarkanir vegna Covid-19 ekki hafa bætt um betur. Þótti henni fjarnámið setja smá strik í reikninginn.

„Þetta er búið að vera rosalega erfitt í Covid. Allt breyttist og þá varð smá viðsnúningur,“ segir Ngan Hieu í samtali við mbl.is.

Dúxinn Ngan Hieu Nguyen Dang, ásamt Kristrúnu Birgisdóttur aðstoðarskólameistara og …
Dúxinn Ngan Hieu Nguyen Dang, ásamt Kristrúnu Birgisdóttur aðstoðarskólameistara og Magnúsi Ingvasyni skólameistara. Ljósmynd/Fjölbrautaskólinn við Ármúla

Sterkust í stærðfræðinni

Ngan Hieu, sem var á viðskipta- og hagfræðibraut, segir stærðfræði hafa verið sitt sterkasta fag en til marks um þann brennandi áhuga sem hún hefur á greininni ber að geta að hún sótti alla þá stærðfræðiáfanga sem stóðu til boða í FÁ.

Aðspurð segir Ngan Hieu áhugann á viðskiptagreinunum hafa kviknað í grunnskóla en móðir hennar starfaði sem bókari og hefur hún verið fyrirmynd hennar. Þá hefur stærðfræði alltaf legið vel fyrir henni og áhugi á tölum verið til staðar frá unga aldri.

Skoðar háskólanám í Þýskalandi

Stefnir hún næst á háskólanám í bókhaldi og fjármálum en eftir útskrift mun hún þó taka smá pásu frá skólagöngunni og vinna áður en hún hefur nám á nýjan leik.

Þykir henni þá mest spennandi að fara til Þýskalands og er meðal annars að skoða háskóla í Berlín og Leipzig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert