„Mjög óþægilegt að skipta um aðstoðarfólk“

Rúnar Björn ásamt eiginkonu sinni.
Rúnar Björn ásamt eiginkonu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Þrátt fyrir annmarka varðandi þjónustuna sem er í boði fyrir NPA-notendur eru þeir yfirhöfuð ekki tilbúnir til að snúa aftur í hefðbundnu þjónustuna sem er í boði hjá sveitarfélögunum. 

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður NPA-miðstöðvarinnar, segist lenda í því eins og aðrir NPA-notendur að hafa engan til að aðstoða sig. Þá er málum þannig háttað að aðstoðarmaðurinn er til að mynda veikur eða eitthvað annað kemur upp á og ekki er hægt að fá annan í staðinn. Enginn ættingi getur heldur hlaupið í skarðið í það skiptið. 

„Ég hef þurft að taka rólega daga þar sem ég er kannski einn heima en fæ einhvern til að líta á mig til að aðstoða mig við að borða og komast fram úr rúmi,” segir Rúnar Björn. Venjulega fær hann samt góðan stuðning frá aðstoðarfólki og ættingjum þegar eitthvað óvænt kemur upp en bendir á að þannig sé það ekki með alla NPA-notendur því aðstæður þeirra séu mismunandi. 

Hann tekur fram að mikill munur sé á NPA-þjónustunni og hefðbundnu þjónustunni hjá sveitarfélögunum. Sú fyrrnefnda bjóði upp á meiri möguleika til sjálfstæðs lífs og því sé fólk ekki tilbúið til að snúa aftur til sveitarfélaganna. „Það er lítið mál að láta sig hafa það annað slagið fyrir frelsið sem maður fær þess á milli. Ég held að það sé þess vegna sem fólk er tilbúið til að taka allavega tímabundið á sig þessar skerðingar á þjónustu sem getur orðið þegar það kemur eitthvað upp á.” 

Rúnar Björn er duglegur að ferðast um landið.
Rúnar Björn er duglegur að ferðast um landið. Ljósmynd/Aðsend

Þarf aukna þjálfun aðstoðarfólks

Rúnar Björn bendir á að á sínum tíma hafi verið sett í reglugerðir ákvæði um sjóð vegna langtímaveikinda aðstoðarfólks hjá jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Starfsmaður NPA-miðstöðvarinnar hefur sótt um greiðslur úr þeim sjóði þegar fólk hefur lent í erfiðleikum með að borga aðstoðarfólki fyrir að sinna því. Að sögn Rúnars hjálpar sjóðurinn til en einnig þyrfti að geta dekkað styttri veikindi. Sömuleiðis segir hann að gera þurfi ráð fyrir aukinni þjálfun aðstoðarfólks. 

„Ég veit að í hefðbundna þjónustuumhverfinu hefur verið auka starfsmaður í jafnvel heila viku á vakt. Í NPA er ekki gert ráð fyrir neinum,” segir hann og kveðst sjálfur yfirleitt borga tveimur aðstoðarmönnum fyrir að vera saman í um fjórar klukkustundir svo að sá reyndari geti kennt nýliðanum. Ýmislegt þurfi að sýna aðstoðarfólkinu sem NPA-notendur geti ekki gert sjálfir og erfitt að útskýra með orðum einum.

Ef NPA-notendur eru með sólahringssamning er reiknað með um 4,2 stöðugildum á mann. Oftast er fólk með slíka samninga samt með fimm til átta aðstoðarmenn, þegar búið er að reikna með sumarfríum, auk þess sem sumir eru í hlutastarfi en aðrir í fullu starfi. 

mbl.is/Ernir

Var með 30-40 aðstoðarmenn á mánuði

Fram kom í samtali blaðamanns við framkvæmdastjóra NPA-miðstöðvarinnar á dögunum að erfitt geti verið fyrir NPA-notendur að ráða aðstoðarfólk og að starfsmannaveltan sé stundum töluverð. Spurður segist Rúnar hafa átt frekar auðvelt með að ráða aðstoðarfólk. Síðan hann byrjaði að nýta sér NPA-þjónustuna fyrir um átta til níu árum síðan hefur hann verið með „innan við 20” aðstoðarmenn sem hann segir heldur minna en gengur og gerist. 

„Mér finnst mjög óþægilegt að skipta um aðstoðarfólk,” segir hann um starfsmannaveltuna, sem virðist órjúfanlegur hluti af veröld NPA-notenda. Honum finnst nýr starfsmaður enn vera nýr þrátt fyrir hálft- eða jafnvel heilt ár í starfi. „Ég held að það væri betra fyrir alla að ná þessari starfsmannaveltu niður, ef hún er há," segir hann. 

Ljósmynd/Aðsend

Fjöldi þeirra sem aðstoða einstakling í öðrum þjónustuformum en NPA getur verið misjafn eftir þjónustukerfi en er alltaf mun meiri heldur með NPA.

„Áður en ég fékk NPA og var í hinu hefðbundna þjónustukerfi komu til mín um 30 til 40 manns til að aðstoða mig í hverjum mánuði þannig að er ég kannski orðinn mjög góðu vanur í NPA. Það að maður ráði hver aðstoðar mann og að það séu fáir einstaklingar er svo miklu betra heldur en hitt.“

Hann segir engu einu um að kenna þegar kemur að starfsmannaveltu. Aðstæður fólks séu misjafnar og stundum sé það óheppið með hvern það ræður. Fólk í hærra starfshlutfalli tolli þó lengur en margir aðrir. 

Eru launin kannski of léleg?

„Þegar öllu er á botninn hvolft held ég að launin séu samkeppnishæf við annað sem er á þessum markaði. Ég held að launin séu ekkert slæm. Þetta eru ekkert ofurlaun en ég held að það sé margt verra launað en NPA og líka margt annað og verra til,” greinir Rúnar frá og nefnir að margt aðstoðarfólk sé ánægt í starfi og tolli þar lengi. Þannig hafi fjölmargir aðstoðarmenn á vegum NPA-miðstöðvarinnar verið þar í um og yfir fimm ár. 

Á góðri stundu í Hlíðarfjalli.
Á góðri stundu í Hlíðarfjalli. Ljósmynd/Aðsend

Vill helst einhvern íslenskumælandi

Sjálfur auglýsir hann eftir einum aðstoðarmanni á ári, að meðaltali. Aðspurður segist hann ekki vera með neinar kröfur þegar hann auglýsir til að takmarka ekki möguleika sína. Sumir NPA-notendur eru þó með ákveðnar kröfur, til dæmis varðandi kyn, enda þurfa þeir á náinni aðstoð að halda við ýmsar athafnir. Þrátt fyrir að auglýsa eftir hverjum sem er kveðst Rúnar samt helst vilja hafa á sínum snærum fólk sem talar íslensku. Hann hefur haft enskumælandi aðstoðarfólk en segir það geta verið mjög flókið að útskýra flókna hluti þegar kemur að aðstoðinni sem hann þarf á að halda á öðru tungumáli en íslensku. Erfiðara er samt að ráða fólk sem talar íslensku þegar atvinnuleysið er lítið í þjóðfélaginu. 

Listamenn sækja í störfin

Spurður hvort eitthvað hafi verið um kvartanir aðstoðarfólks vegna starfsins til NPA-miðstöðvarinnar segir hann aðstoðarfólk almennt vera ánægt. Vísar hann til skoðanakönnunar miðstöðvarinnar á meðal aðstoðarfólks og skoðunarkönnunar félagsmálaráðuneytisins í fyrra. Einnig nefnir hann rannsókn frá árinu 2016. „Yfirgnæfandi ánægja” aðstoðarfólks með fyrirkomulagið hafi komið fram alls staðar og helst sé fólk ánægt með sveigjanleikann þegar kemur að vinnutímanum. Sem dæmi nefnir hann að mikið af listafólki sæki í störfin og einu sinni hafi hann og félagi hans verið með fimm aðstoðarmenn hvor sem allir spiluðu á hljóðfæri. „Í mörgum tilfellum eru þetta lengri vaktir en gengur og gerist annars staðar en það eru lengri frí á móti og þau henta mörgum.” 

Erfitt getur verið fyrir Rúnar Björn að útskýra flókna hluti …
Erfitt getur verið fyrir Rúnar Björn að útskýra flókna hluti ef aðstoðarmennirnir tala ekki íslensku. Ljósmynd/Aðsend

Einnig getur það verið jákvætt fyrir aðstoðarfólk ef NPA-notendur eru duglegir að ferðast, eins og Rúnar einmitt er. Sjálfur hefur hann þó ekkert ferðast erlendis síðan kórónuveiran tók að láta á sér kræla. „Ég held að margt aðstoðarfólk líti á það sem mikinn kost þegar verkstjórnandinn ferðast. Það á ekkert endilega við um alla en ég veit að margt aðstoðarfólk hefur mjög gaman af því,” nefnir hann og segir í léttum dúr að sitt aðstoðarfólk sé farið „að suða í honum” um að fara til útlanda á nýjan leik. 

Spurður nánar út í vaktirnar segir hann heimild fyrir allt að 48 klukkustunda vöktum, svokölluðum hvíldarvöktum. Þá getur aðstoðarfólkið lagt sig á næturnar en verið til taks eins og á bakvakt ef eitthvað kemur upp á.

Veigra sér við að flytja í sum sveitarfélög

Þörf er á meira fjármagni bæði frá sveitarfélögum og ríkinu til að NPA-notendur geti notið þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt þeim samningum sem hafa verið gerðir. Rúnar segir hlutina þó aðeins skánað hjá sveitarfélögum. Þau séu farin að taka upp taxta sem NPA-miðstöðin hefur reiknað út frá kjarasamningum sem lágmarkstaxta fyrir notendur. Taxtinn er þó misjafn eftir sveitarfélögum og var munurinn allt að 15% á þeim hæsta og þeim lægsta, segir hann. 

Þau sem greiði lægsta taxtann séu ekki nálægt því að gera NPA-notendum kleift að greiða aðstoðarfólki samningsbundinn laun.  

Frá stoltgöngu fatlaðra fyrir nokkrum árum sem lauk á Austurvelli. …
Frá stoltgöngu fatlaðra fyrir nokkrum árum sem lauk á Austurvelli. Í henni er vakin athygli á réttindabaráttu fatlaðra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður hvort dæmi séu um að NPA-notendur flytji á milli sveitarfélaga til að bæta kjör sín segir hann ekki auðvelt fyrir þá að taka þannig ákvarðanir vegna fötlunar sinnar. 

„Ég veit til þess að fólk hugsar sig tvisvar um áður en það flytur í annað sveitarfélag,” segir hann og á við þjónustuna sem þar er í boði. „Fólk hefur veigrað sér við að flytja í sum sveitarfélög. Fólk hefur líka flutt yfir í sveitarfélag og lent í vandræðum vegna þess,” bætir hann við og á við að mismunandi reglur og viðmið gildi á milli sveitarfélaga þegar kemur að þjónustu fyrir fatlað fólk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert