Fluglitakóða breytt í appelsínugulan

Frá eldgosinu í Geldingadölum. Þar virðist jörðin aftur byrjuð að …
Frá eldgosinu í Geldingadölum. Þar virðist jörðin aftur byrjuð að hristast. mbl.is/Árni Sæberg

Um kl. 17 í gær hófst hrina smáskjálfta norðaustur af Geldingadölum. Alls hafa yfir 1.100 skjálftar mælst enn sem komið er. Stærsti skjálftinn var 4,2 að stærð kl. 04:24 og fannst hann vel á suðvesturhorninu.

Aðrir tveir mældust 3,8 að stærð kl. 02:51 og 04:55, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Vegna hrinunnar sem nú stendur yfir hefur Veðurstofan breytt fluglitakóða í appelsínugulan en við það er eldstöð sögð sýna aukna virkni og vaxandi líkur á eldgosi.

Ekki er ólíklegt að kvikuhlaup sé í gangi sem þýðir að kvikan er að færast lárétt í jarðskorpunni. Engin merki eru um gosóróa.

Aflögunarmælingar sýna að kvikusöfnun er í gangi í jarðskorpunni við Fagradalsfjall og erfitt er að spá um hvert framhaldið verður.

mbl.is