Innlögnum muni fjölga eftir nokkra daga

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að spítalainnlögnum gæti fjölgað hratt nú á næstu dögum í ljósi fjölda smita undanfarna daga. Hann bindur þó vonir við að þriðji skammturinn af bóluefni muni vernda gegn alvarlegum veikindum Covid-19 en nú þegar hafa 150 þúsund Íslendingar fengið örvunarskammt.

267 smit greindust innanlands í gær en daginn þar á undan var nýtt met slegið þegar að 289 smit greindust innanlands.

Sóttvarnalæknir og Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, hafa sagt í viðtali við mbl.is að búast megi við veldisvexti á næstu dögum og gæti fjöldi smita á dag farið upp í 600 til 800 ef þróunin verður sú sama hér á landi og hún hefur verið í nágrannaríkjum okkar – til að mynda Danmörku.

Áttir þú von á fleiri smitum í gær?

„Ég svo sem veit ekki hverju við áttum von á. Maður átti svo sem von á því að þetta gæti farið upp. Það tekur nokkra daga að sjá árangur af aðgerðum. Ég held við gætum alveg átt von á því að þetta gæti vaxið eitthvað.“

Óskandi að þriðji skammturinn komi í veg fyrir innlagnir

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Landspítala liggja nú 10 sjúklingar inni vegna Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu og er einn þeirra í öndunarvél. Sjúklingarnir voru alls 12 í gær og fækkar þeim því um tvo milli daga.

Þrátt fyrir að smittíðni sé nú í hæstu hæðum hafa spítalainnlagnir þó oft verið fleiri áður. Fór fjöldi innlagna til að mynda upp í 34 í ágúst en þá náði fjöldi greindra smita mest 154 á einum degi.

Spurður hvernig hægt sé að útskýra þetta ósamræmi, segir Þórólfur að búast megi við fjölgun innlagna á næstu dögum en yfirleitt hafi það tekið eina til tvær vikur fyrir innlagnir að endurspegla smittíðni í samfélaginu.

„Sá tími er ekki liðinn. Við erum ekki búin að bíta úr nálinni með það.“

Hann segir þróunina á Íslandi svipa til með þeirri sem sést hefur í Danmörku, að því undanskildu að mun fleiri hafa verið bólusettir með þriðja skammtinum hérlendis. Gæti það skipt sköpum.

„Það er óskandi að þessi þriðji skammtur komi vel í veg fyrir spítalainnlagnir. Það eru gögn sem benda til þess að þessi þriðji skammtur skipti mjög miklu máli varðandi veikindi en kannski ekki svo mikið til að koma í veg fyrir smit. Við erum búin að gefa um 150 þúsund manns örvunarskammt þannig það eru enn þá 140 þúsund sem hafa ekki fengið. Svo er náttúrulega hópur sem hefur ekki viljað láta bólusetja sig.

Þurfum að vera tilbúin að breyta áherslum

Ný reglugerð um sóttvarnir tók gildi á miðnætti og munu þær aðgerðir vera áfram næstu þrjár vikurnar að öllu óbreyttu. Spurður hvort hann teldi þörf á því að lengja gildistímann sagði Þórólfur tímann þurfa að leiða það í ljós.

„Yfirleitt hafa þessar reglugerðir gilt í þrjár til fjórar vikur. Síðan er það bara endurskoðað eftir því sem tíminn líður. Stundum hefur þeim verið aflétt fyrr og stundum hafa þær verið lengdar eða hertar. Þannig þetta er bara breytilegt en ég held að það sé skynsamlegt að hafa þetta svona en menn þurfa að vera tilbúnir að breyta einhverjum áherslum eftir því hvernig þessu vindur fram.“

Meðal þess sem sóttvarnalæknir lagði til í minnisblaðinu var að grunn-, framhalds- og háskólar yrðu lokaðir til 10. janúar. Heilbrigðisráðherra féllst þó ekki á þá tillögu. Inntur eftir viðbrögðum við þeirri ákvörðun, segir Þórólfur það verða koma í ljós hvaða afleiðingar þetta mun hafa.

„Rökin fyrir því að leggja þetta til voru þau að við erum að sjá flestu smitin hjá aldurshópnum sex til og með tólf ára – og ekki svo mikið hjá yngri hópi. Þess vegna taldi ég að það væri skynsamlegt að bíða með að virkja skólana. Fresta því um viku. En svo eins og ég hef alltaf sagt þá þurfa stjórnvöld að skoða málið út frá öðrum hagsmunum og taka aðra hagsmuni inn í og taka svo endanlega ákvörðun. Ég hef engar sérstakar athugasemdir um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert