Megum búast við 600 smitum á dag

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala.
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Að minnsta kosti 160 Ómíkron-smit hafa verið staðfest hér á landi og var meirihluti þeirra meðal fólks utan sóttkvíar við greiningu. Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, telur líklegt að útbreiðsla veirunnar muni brátt líkjast því sem hefur sést hjá nágrannaríkjum okkar. Því megi hæglega búast við 600 smitum á dag á næstunni.

200 kórónuveirusmit greindust innanlands á síðastliðnum sólarhring, aldrei hafa fleiri greinst um helgi þegar færri sýni eru tekin að jafnaði.

„Okkur líst ekki vel á þetta. Öll reynsla í nágrannaríkjum er þannig að þetta mun bara vaxa núna í veldisvexti og við getum alveg gert ráð fyrir því að þetta verði eins og í Danmörku. Þá gætum við verið að sjá sirka 600 smit á dag. Ef svo fer, þá munum við vera með á tíu dögum sex þúsund smit og tólf þúsund smit á tuttugu dögum,“ segir Már í samtali við mbl.is.

Ef spáin raungerist segir hann eina kostinn í stöðunni að allt samfélagið bregðist við.

Gæti stefnt í 120 spítalainnlagnir

Tólf sjúklingar liggja nú inni á Landspítala vegna Covid-19, þar af er einn á gjörgæslu í öndunarvél. 

Að sögn Más má ekki lesa of mikið í þær tölur en ef útbreiðsla veirunnar mun líkja eftir því sem gerðist á Norðurlöndunum má búast við 120 spítalainnlögnum í einu, ef gert er ráð fyrir að 1% þeirra sem veikjast muni leggjast inn. 

„Þorri fólks mun ekki veikjast mikið og alvarlega en það er þetta sem út af stendur sem kemur til kasta heilbrigðisstofnana.“

Mikilvægt að grípa í taumana

Hann segir nú tvo mikilvæga þætti í stöðunni til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Annars vegar að grípa harkalega í taumana hvað varðar samkomutakmarkanir og hins vegar að hvetja fólk í örvunarbólusetningar og hefja bólusetningar barna á aldrinum fimm til 11 ára.

„Þeim mun meira ónæmi sem við höfum í samfélaginu, þeim erfiðara er fyrir veiruna að dreifast.“

Hann segir mikilvægt að bregðast við stöðunni. Að öðrum kosti muni heilbrigðiskerfið lenda í mjög miklum vandræðum. 

Hvað gerist þá?

„Jafnvel þó að Covid væri ekki að dreifa sér þá er spítalinn með of fá sjúkrarúm miðað við þörfina í samfélaginu. Ef ekkert er gert hvað gerist þá? Fólk þarf bara að gera það upp við sig. Það er ekki pláss fyrir 120 til viðbótar.“

160 staðfest Ómíkron-smit

Að sögn Más hafa að minnsta kosti 160 Ómíkron-smit verið staðfest og var stór hluti þeirra meðal einstaklinga utan sóttkvíar við greiningu.

„Þetta segir mér að Ómíkron er örugglega komið út um allt í samfélaginu. Það er það sem er að reka þetta áfram – veldisvöxtinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert