Styður við þá sem lítið hafa milli handanna fyrir jólin

Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og forsprakki Römpum upp Reykjavík.
Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og forsprakki Römpum upp Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Har­ald­ur Þor­leifs­son, stjórnandi hjá Twitter og stofn­andi hönnunarfyrirtækisins Ueno, greindi frá því á Twitter í kvöld að hann byðist til þess að styðja við þá sem lítið hafa á milli handanna fyrir jólin.

„Jólin eru fallegur tími. En þau geta líka verið erfið fyrir mörg okkar. Sérstaklega fyrir barnafólk með lítið á milli handanna. Við viljum öll gleðja börnin okkar á þessum tíma,“ skrifar Haraldur.

Hann biður síðan þá sem í hópi þessum eru að senda sér einkaskilaboð með kennitölu og reikningsnúmeri.

Bauðst til þess að borga allan lögfræðikostnað

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Haraldur lætur gott af sér leiða og biður fólk að hafa samband við sig á Twitter ef það þarf á fjárhagslegum stuðningi að halda. Hann stendur einnig fyrir átakinu Römpum upp Reykjavík, sem lauk nýlega með smíði á rampi númer 101 í miðborg Reykjavíkur.

Þá ákvað hann að greiða alla skatta af sölu fyrirtækis síns á Íslandi fyrr á árinu. Twitter festi kaup á tækni- og vefhönnunarfyrirtækinu sem Haraldur stofnaði. Haraldur greindi frá því á Twitter fyrr á árinu að hann hefði al­ist upp hjá fá­tæk­um for­eldr­um og væri með al­var­lega fötl­un.

Þá sagði hann bæði ókeyp­is heil­brigðisþjón­ustu og skólastarf á Íslandi hafa gert sér kleift að dafna þrátt fyr­ir erfiðleika sína í æsku. Hann vildi því styðja við kerfið sem studdi hann með skatt­greiðsl­un­um.

Í júlí bauðst Haraldur einnig til þess að greiða allan lögfræðikostnað þeirra sem kynnu að verða lög­sótt­ir af Ingólfi Þór­ar­ins­syni vegna ásak­ana í hans garð um kyn­ferðisof­beldi og kyn­ferðis­lega áreitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert