Ung fjölskylda 439 milljónum ríkari

Nokkuð mörg eintök af hverjum þessara þriggja þarf til þess …
Nokkuð mörg eintök af hverjum þessara þriggja þarf til þess að samsvara þeim stóra sem vannst í Vikinglotto í gær. mbl.is/Golli

Stóri vinningurinn í Vikinglotto fór út í gær og í tilkynningu frá Íslenskri getspá kemur fram að „lítil fjölskylda“ hafi unnið þær 439 milljónir sem voru í pottinum.

Segir þá að fjölskyldufaðirinn sem er um þrítugt hafi gerst áskrifandi í kjölfar þess að stóri vinningurinn hafi komið til landsins síðastliðið sumar og „það var því ekki lengi að bera árangur“.

Vinningshafinn segir fiðring hafa gert varan við sig þegar fréttir bárust af því í gærkvöldi að áskrifandi á Íslandi hafi unnið stóra vinninginn. Hann hafi þó ákveðið að bíða með að kanna tölurnar enda á leiðinni á jólatónleika.

Hringdi í mömmu

„Mig langaði líka að upplifa þetta símtal sem ég hef svo oft heyrt um.“ Sú varð að endingu raunin fyrir þennan unga fjölskyldufaðir og segir hann það einfaldlega ekki hafa getað komið á betri tíma enda hann og kærastan í húsnæðisleit fyrir sig og litla barnið sitt.

Fyrstu viðbrögð mannsins voru þó ekki að láta kærustuna vita, en líkt og margur hefði gert, þá voru fyrstu viðbrögð að „hringja beint í mömmu“.

Hann hyggst þá þiggja þá fjármálaráðgjöf sem Íslensk getspá býður öllum þeim sem hreppa stóra vinninga en milljónirnar muni koma sér vel á þessum tímamótum sem fjölskyldan stendur á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert