Um og yfir 3.000 jarðskjálftar á hverjum degi

Fagradalsfjall.
Fagradalsfjall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um og yfir 3.000 jarðskjálftar hafa mælst á hverjum degi við Fagradalsfjall síðan skjálftahrina hófst síðdegis 21. desember.

Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að mesta skjálftavirknin sé við Fagradalsfjall en gikkskjálftar hafa einnig orðið nærri Grindavík og Kleifarvatni en talið er að orsök þeirra megi rekja til aukins þrýstings við Fagradalsfjall vegna kvikusöfnunar. 

Mesta gikkskjálftavirknin var skammt norðan við Grindavík á aðfangadagskvöld en þá mældust þrír skjálftar yfir 4,0 að stærð, sá stærsti 4,8. 

Engin merki um kvikusöfnun annars staðar

Þá segir að engin merki séu um kvikusöfnun annars staðar en við Fagradalsfjall og að jarðskjálftavirknin hafi verið nokkuð hviðukennd þar sem virkni eykst tímabundið með mjög þéttri skjálftavirkni.

InSAR gervitunglamyndir sem ná yfir tímabilið 20.-26. desember.
InSAR gervitunglamyndir sem ná yfir tímabilið 20.-26. desember. Kort/Veðurstofa Íslands

Á gervitunglamyndum sem ná yfir tímabilið 20.-26. desember sjást skýr aflögunarmerki og aflöguninni sem er að eiga sér stað núna svipar mjög til aflögunarinnar sem sást í lok febrúar, þegar kvikugangur var að myndast undir svæðinu við Fagradalsfjall.

Þessar niðurstöður eru í samræmi við GPS-mælingar sem sýna aflögun á sama svæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert